Flest börn voru sofandi í morgun (lau) þegar vakið var kl 8:30, þó nokkrir morgunhanar byrjaðir að lesa syrpur eða leggja kapal. Í morgunmatnum kl 9 var morgunkorn á boðstólunum, en venjan er að hafa það í boði annan hvern dag á móti heitu kakói og brauði með áleggi. Við byrjum alla morgna á því að signa okkur og fara með bænina „Nú er ég klæddur“. Eftir mat var morgunstund. Þar talaði Hreinn við þau um Biblíuna; hvernig henni væri skipt niður, hverjir hefðu skrifað hana, hvernig ætti að fletta í henni osfv. Í beinu framhaldi fór hvert borð með sínum borðforingja og æfði sig að fletta upp völdum textum. Í dag flettu þau uppá Sálm 119, vers 9 og 105 og svo Heb 4;12.
Svo tók við frjál tími. Íþróttahúsið var opið og kepptu áhugasamir á borðtennismóti. Smíðaverkstæðið opið að venju þar sem þau hamast við að búa til mun til þess að senda inn í lista- eða smíðakeppnina. Hliðarkeppni af því er kúlukeppnin, en sigurvegarinn mun hafa komist næst því að pússa hina fullkomnu kúlu. Við gátum því miður ekki boðið uppá báta í dag sökum mikils vinds. Krökkunum fannst erfitt að trúa því af því að í norð-austan áttinni (eins og er núna) er hávaða vindur úti á vatni og hvítfrissandi öldur en næstum logn á svæðinu okkar útaf háum trjám. Ég benti þeim á að fara að vatninu og þá kom svona „aaa, ég skil“ svipur.
Í hádegismat var ítalskt „spaghetti´n meetballs“ sem fékk góðar viðtökur. Þegar krakkarnir voru búin að borða réðst inn herdeild með lúðrablæstri og auglýsti næsta dagskrálið uppá stól, sem er bara gert einu sinni í hverjum flokki, en það er þegar hermannaleikurinn er að byrja. Sá leikur virkar þannig að hópnum er skipt í tvennt; haukdælir og oddverjar. Leikurinn fer fram í Oddakoti, eyðibýli innan svæðis Vatnaskógar, uppvið annan ós vatnsins. Allir fá þvottaklemmu sem þeir festa á aðra ermina sína, það er lífið þeirra. Leikurinn gegnur út á að „drepa, ekki meiða“ eða að ná sem flestum klemmum af andsstæðingnum án þess að meiða. Heppnaðist mjög vel. Við Oddakot er strönd og Íslendingar geta ekki séð strönd án þess að rífa upp sig úr skóm og sokkum og byrja að vaða. Það endaði í mörgum tilfellum í „öllum fötum blautum“ en ég meina .. það þornar bara (: Svo var haldið til baka í Vatnaskóg (10 mín ganga) til þess að missa ekki af kaffinu, en þar var boðið uppá súkkulaðiköku með bleiku smjörkremi, kanilsnúða og tebollur. Eftir kaffi voru nokkrir leikir í fótboltamótinum, smíðaverkstæðið og íþróttahúsið opið. Kl 19 var kvöldmatur; blátt, hvítt og grænt skyr (bara venjulegt vanillu skyr með matarlit). Sportið var að fá sér 1 ausu af hverjum lit í skálina sína, ég hef aldrei séð börn borða jafn mikið skyr. Og auðvitað brauð í boði með. Með fulla maga af skyri kepptu börnin í þythokkýmóti og í 60 metra spretthlaupi. Kvöldvaka á sínum stað; leikrit, hugleiðing, sungið saman og mjög spennandi framhaldssaga. Eitt og eitt barn var byrjað að dotta á kvöldvökunni, þau skriðu bara uppí rúm en þau sem vildu máttu koma á „movie-night“ þar sem við poppuðum og horfðum á myndina Liar Liar. Margir sofnuðu yfir myndinni og restin var ekki lengi að sofna þegar hún var búin, þrátt fyrir að margir væru „sko ekki baun í bala þreytt“.
Mjög vel heppnaður dagur að kveldi komin, stöku heimþrá en það fylgir.
Ég biðst afsökunar á myndaleysi, tæknitröllið ég hélt að fleiri myndir hefðu komið inn í gær en raun ber vitni. Núna eru fleiri komnar inn, getið klikkað hér (:  
Það er símatími milli 11 og 12 þar sem þið getið heyrt í okkur og spurt hvernig ykkar barni gengur, en ef ekki gengur vel, heyrum við í ykkur. Svo – „no news is goos news“.
Þangað til á sama tíma á morgun – Gríma