Fyrsti dagurinn hér í skóginum gekk eins og í sögu, boðið var upp á leiki, knattspyrnu, kúluvarp og báta. Drengirnir léku sér á kassabílum og kíktu á smíðaverkstæðið eftir kvöldmat. Þeir tóku duglega til matar síns, enda boðið upp á kjötbollur í hádeginu og heimabakað brauð ásamt sveppasúpu í kvöldmat. Kvöldvakan var að venju fjörug, boðið upp á leikriti, framhaldssögu og síðan sagði Hreinn foringi dæmisögu Jesú um góða hirðinn.

Þegar kvöldaði bar smávægis á heimþrá hjá nokkrum guttum, en þó ekkert stórvægilegt og drengirnir allir komnir undir sæng eða inn í svefnpoka um 23:15. Við notum lavanderúða til að draga úr lúsmýinu í álmu flestra drengjanna sem er að gefast mjög vel. Drengirnir hafa ekki kvartað mikið enn, en í starfsmannaálmu þar sem lavanderúðinn var ekki notaður, var einstaka starfsfólk minnt á að lúsmýið er hér enn.

Drengirnir vöknuðu sumir snemma í morgun, enda spennandi að vera á nýjum stað, en væntanlega ná þeir að sofa lengur á morgun, enda ströng dagskrá í dag. Framundan í dag er svokallaður hermannaleikur, eltingaleikur með klemmum. Boðið verður upp á tæplega langstökk, hlaupagrein og líklega spjótkast. Knattspyrna verður á dagskrá, kassabílarallí verður nú í morgunsárið, íþróttahúsið verður opið fyrir frjálsan leik og þeir sem vilja geta dundað sér í smíðastofunni.

Hægt er að sjá nokkrar ljósmyndir frá 9. flokki á Flickr svæði KFUM og KFUK.  Slóðin á myndasafnið er: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157709888369367.

Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, er hægt að senda tölvupóst á netfangið elli@vatnaskogur.net.


Fræðsluinnlegg að morgni annars dags – Heimþrá

Í þessum flokki bar aðeins á heimþrá í gærkvöldi fyrir svefninn, þó meira en 90% drengjanna njóti sín mjög vel. Því þykir mér mikilvægt að útskýra fyrir þeim foreldrum sem áhuga hafa hvaða hugmyndafræði og nálgun við aðhyllumst í þessum flokki í Vatnaskógi í tengslum við heimþrá. Því er hér smá innlegg.

Þrátt fyrir að heimþrá hafi ekki mikil áhrif nema á mjög lítinn hluta drengjanna er heimþrá mikilvæg tilfinning og getur snert okkur öll. Heimþrá snýst um missi og er þannig nátengd sorg. Viðbrögð drengjanna eru þannig oft eins og skyndikúrs í sorgarviðbrögðum. Þegar heimþrá nær tökum á drengjunum, geta þeir komið með ásakanir, lokað sig af, reiðst og/eða notað samningatækni til að takast á við vanlíðan/sorgina. Á stundum fylgir líkamleg vanlíðan, oftast nær í tengslum við magann (eða meltingarkerfið) þó stundum birtist líkamlega vanlíðanin í hausverk eða stirðleika í liðum.

Fullorðnir einstaklingar þekkja væntanlega flest þessi einkenni, enda fullkomlega eðlileg viðbrögð við áfalli og breyttum aðstæðum. Fyrir marga drengina í sumarbúðum eru þessar sveiflukenndu og sterku tilfinningar hins vegar nýjar og jafnvel áður óþekktar og þeir hafa ekki hugmynd um hvernig hægt er að takast á við þær.

Í Vatnaskógi leggjum við áherslu á að takast á við þessar tilfinningar í samráði við foreldra og höfum samband strax og við teljum að  tilfinningarnar hefti tækifæri drengjanna til að njóta dvalarinnar. Það að við höfum samband merkir samt alls ekki að við teljum að viðkomandi drengur þurfi að fara heim, heldur miklu fremur viljum við að þekking foreldra á barninu nýtist til að hjálpa okkur að finna leiðir til að leyfa barninu að njóta sín.

Aðferðafræðin í heimþrármálum hérna í Vatnaskógi þessa vikuna er sú að hjálpa barninu að brjótast út úr sorgarferlinu, sættast við umhverfi sitt og sjá tækifærin í dvölinni. Þannig viðurkennum við og skiljum tilfinningarnar en reynum að beina athygli þeirra frá vanlíðuninni að tækifærunum.

Við trúum því að þessi reynsla drengjanna og það að láta ekki stjórnast af vanlíðan, þó hún sé viðurkennd, sé mikilvæg fyrir drengina og hjálpi þeim til að þroska tilfinningar sínar og andlegt atgervi. Við skiljum þó líka að það getur gerst að aðstæður, upplifun og tilfinningar drengjanna séu þess eðlis að þeir eru einfaldlega ekki tilbúnir til að takast á við dvölina og þurfa að vera skemur en áætlað var í upphafi. Það gerist þó mjög sjaldan.