Eftir skemmtilegan dag í gær, með fjölbreyttri dagskrá er komið að þriðja dag flokksins. Framundan er spennandi dagur með spennandi viðburðum sem endar með kvikmyndakvöldi, þar sem horft verður á ævintýramynd tengdri dagskrá dagsins.
Annars er óhætt að segja að dagurinn í gær hafi gengið með besta móti. Reyndar hefur knattspyrnuforinginn okkar haft óvenjulítið að gera, enda ekki mikil fótboltastemmning í hópnum, en á móti kemur að hátt í helmingur drengjanna hefur tekið þátt í frjálsíþróttadagskránni, einhverjir hafa fundið sig heima á smíðaverkstæðinu og í gær tóku nokkrir drengir sig til og fengu að vaða í vatninu þrátt fyrir mikinn vind. Stærsti viðburðurinn í gær var hinn vikulegi hermannaleikur, sem er eltingaleikur milli tveggja liða, þar sem drengirnir keppast við að ná þvottaklemmum sem eru festar á upphandlegg andstæðinganna. Þessi leikur á sér margra áratugasögu í Vatnaskógi, umgjörð leiksins tekur stöðugum breytingum og leikurinn er til í fjölmörgum mismunandi útgáfum hér í skóginum. Í grunninn er markmiðið þó skýrt, fá drengina til að fara út í skóginn sem umlykur staðinn og hlaupa þar um í fjörugum leik í rétt um tvær klukkustundir.
Drengirnir tóku vel til matar síns í gær. Í hádegismat var boðið upp á steiktan fisk, ofnsteiktar smákartöflur, grænmetissalat og koktailsósu og í kvöldmat var kjöthakk og spaketí, með papríkum, gúrku og tómatsósu.
Hægt er að sjá örfáar ljósmyndir frá 9. flokki á Flickr svæði KFUM og KFUK. Slóðin á myndasafnið er: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157709888369367.
Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, er hægt að senda tölvupóst á netfangið elli@vatnaskogur.net.