Í dag er veisludagur í Vatnaskógi. Á veisludegi í dag verður boðið upp á brekkuhlauð, sem er 1.6 km hlaup upp að hliðinu að staðnum. Nú í morgunsárið er einnig boðið upp á úrslitaleikinn í Kristalbikarnum í Vatnaskógi. Eftir hádegi verður drengjunum boðið að vaða og stökkva í vatnið enda er spáð allt að 23 stiga hita upp úr hádegi og þá verður einnig langstökk án atrennu, auk þess sem boðið er upp á körfubolta.

Síðar í dag verður knattspyrnuleikur milli drengja og foringja, smíðaverkstæði og bátar verða í boði, heitu pottarnir verða opnir í allan dag og drengirnir verða hvattir til að fara í sturtu og snyrtilegri föt.  Loks hefst veislukvöld kl. 18:30. Boðið verður upp á dýrindismat, drengirnir taka við viðurkenningum fyrir árangur í þeim fjölda móta sem eru í gangi í hverri viku, Sjónvarp Lindarrjóður verður með útsendingu, lokakafli framhaldssögunnar verður lesin og margt fleira.

Dagskráin í gær var spennandi, við gengum til guðsþjónustu í Hallgrímskirkju á Saurbæ. Þar heyrðu þeir lítillega um Guðríði Símonardóttir sem var rænt frá Vestmannaeyjum og hneppt í þrældóm í Alsír 1627 ásamt ungu barni sínu. Síðar fóru þrælasölumenn Danakonungs til Alsír og keyptu henni frelsi ásamt öðrum Íslendingum, en barnið hennar varð eftir í Alsír. Guðríður bjó síðar á Saurbæ á Hvalfjarðarströnd ásamt manni sínum Hallgrími Péturssyni og er sagt að hún hafi ávallt haft pyngju í belti sínu þar sem hún lagði til smápeninga sem hana dreymdi um að geta nýtt til að kaupa syni sínum frelsi.

Eftir guðsþjónustuna var grillveisla á hlaðinu á Saurbæ, áður en gengið var í sund. Þetta var þó alls ekki allt sem gerðist í gær, enda var boðið upp á Quidditch mót milli borða eftir kvöldverð.

Öðru hvoru nefna foreldrar við mig að þeir vildu óska þess að þau gætu komið upp í Vatnaskóg og kynnst staðnum sem hefur jafn stóran sess í hjarta barnanna þeirra og raun ber oft vitni. Mig langar af þeim sökum að benda á tvö frábær tækifæri sem Vatnaskógur býður upp á fyrir fjölskyldur. Annars vegar er vert að minnast á fjölskylduflokka sem eru nokkrum sinnum á ári í skóginum og hins vegar langar mig að benda sérstaklega á Sæludaga um Verslunarmannahelgina sem er vímuefnalaus hátíð hér í Vatnaskógi með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, er hægt að senda tölvupóst á netfangið elli@vatnaskogur.net.

Hægt er að sjá örfáar ljósmyndir frá 9. flokki á Flickr svæði KFUM og KFUK.  Slóðin á myndasafnið er: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157709888369367.