Framundan er lokadagur 9. flokks í Vatnaskógi. Dagskráin verður fjölbreytt og byrjar með kvikmyndasýningu í Gamla skála að loknum morgunverði og fánahyllingu. Að myndinni lokinni munu drengirnir pakka í töskur. Þá tekur við frjáls dagskrá fram til hádegis, bátar og íþróttahúsið verða opið. Í hádegisverð verða hinar sívinsælu Vatnaskógarpizzur. Eftir hádegismat boðið síðan boðið upp á fjölbreytta dagskrá fram til kl. 14 þegar drengirnir munu safnast saman og fara í hópleiki. Um kl. 15:00 verður boðið upp á kaffitíma, áður en drengirnir halda heim með rútunni. Áætluð heimkoma er kl. 17:00 við KFUM og KFUK húsið við Holtaveg. Foreldrar sem hyggjast sækja börnin sín í Vatnaskóg eru beðin um að vera komin á svæðið ekki síðar en 15:45.

Við sem störfum í Vatnaskógi ítrekum þakkir fyrir það traust sem foreldrar og forráðamenn sína okkur með að senda börnin sín hingað í sumarbúðir.

Öðru hvoru nefna foreldrar við mig að þeir vildu óska þess að þau gætu komið upp í Vatnaskóg og kynnst staðnum sem hefur jafn stóran sess í hjarta barnanna þeirra og raun ber oft vitni. Mig langar af þeim sökum að benda á tvö frábær tækifæri sem Vatnaskógur býður upp á fyrir fjölskyldur. Annars vegar er vert að minnast á fjölskylduflokka sem eru nokkrum sinnum á ári í skóginum og hins vegar langar mig að benda sérstaklega á Sæludaga um Verslunarmannahelgina sem er vímuefnalaus hátíð hér í Vatnaskógi með fjölbreyttri dagskrá fyrir alla fjölskylduna.

Hægt er að sjá örfáar ljósmyndir frá 9. flokki á Flickr svæði KFUM og KFUK.  Slóðin á myndasafnið er: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157709888369367.

Við í Vatnaskógi erum stöðugt að reyna að gera gott starf enn betra. Þess vegna viljum við endilega fá að vita um það sem drengjunum fannst ganga vel og eins það sem kannski var síðra. Ef drengirnir nefna eitthvað sérstakt eftir að þeir koma heim sem gæti hjálpað okkur til að gera ennþá betur, má endilega senda mér tölvupóst á elli@vatnaskogur.net eða hringja á skrifstofu KFUM og KFUK við Holtaveg.