Í dag var enn einn dýrðardagurinn í Vatnaskógi!

Veðrið var dásamlegt, en það hefur verið virklega gott undanfarna dag, í dag var sólríkt og hlýtt, mælirinn sýndi 17 gráður í skugga og var einnig nokkuð stillt veður, sem er alltaf jákvætt. Á veisludegi eru ýmsar góðar hefðir hafðar í heiðri. Þá er hlaupið brekkuhlaup þar sem að hlaupið er upp brekkuna frá Gamla skála að hliðinu og til baka , samtals um 2 km. Úrvalslið og pressuleið drengja keppa við foringja flokksins í hinum víðfræga foringjaleik, en í dag var jafn og spennandi leikur þar sem að 12 drengja pressulið og úrvalslið drengja mættu 8 foringjum. En foringjar sigruðu naumlega 5-4. Þá er alltaf biblíuspurningakeppni á veisludegi og að þessu sinni komust lið 1. og 2. borðs í úrslit, en lið 1. borðs bar að þessu sinni sigur úr býtum í æsispennandi úrslitakeppni. Hegðunarkeppni flokksins lýkur ávallt og veisludegi og fá þá drengirnir sem sýndu af sér hvað besta hegðun í flokknum bikar að launum, að þessu sinni voru það drengirnir á 6. borði sem sigruðu hegðunarkeppnina.

En það var margt brallað í dag, dagurinn hófst að venju með morgunmat og fánahyllingu, því næst var morgunstund og biblíulestur. Fyrir hádegismat var boðið upp á skemmitlega dagsskrá bikarkeppni í fótbolta, bátar og smíðar, streetball mót og þythokkímót. Í hádeginu var skyr í matinn, en eftir hádegi var drengjunum boðið í skemmtisiglingu á Eyrarvatni og máttu þeir synda í vatninu. Nánast allir drengirnir lögðu í vatnið og fengu svo að jafna sér á kuldanum í vatninu í heitu pottunum. Í kaffinu var boðið upp á kökur og kruðerí í anda Vatnaskógar og í veislukvöldmat var boðið upp á snitsel og veislumeðlæti.

Eftir kvöldmat var veislukvöldvaka sem drengirnir klæddu sig upp fyrir, þá voru afhentir bikarar fyrir keppnir flokksins og var gleðin svo sannarlega við völd. Þegar þetta er ritað er að komast á ró í svefnskálum og flestir drengjanna að sofna eftir viðbruðarríkan dag, þeir koma heim sælir og þreyttir á morgun (föstud). Við áætlum að rútan komi að Holtavegi kl. 17 á morgun.