Drengirnir voru vaktir klukkan 8:30 í morgun með ljúfum tónum. Hér er sól, hiti og ekki ský á himni. Það verður því nóg að gera á sólarvarnarvakt í dag. Eftir hádegismat förum við í hermannaleikinn. Hermannaleikurinn virkar þannig að við skiptum hópnum í tvennt, 49 vs 49, og kallast liðin Oddverjar og Haukdælir. Oddverjar labba út í Oddakot og bíða þar eftir Haukdælum. Leikurinn gengur út á það að ná klemmum af öxl drengjanna í hinu liðinu. Ef þú missir þína klemmu þá þarft þú að fara aftur í bækistöðvar og ná í nýja klemmu. Liðið sem safnar fleiri klemmum vinnur leikinn. Svo vegna góða veðursins munum við bjóða upp á vatnafjör. Fyrir utan Hermannaleikinn og vatnafjör verður almenn dagskrá í boði. Fótbolti, bátar, smíðaverkstæði, folf, íþróttahús, spil og margt fleira.

Eftir kvöldhressingu er svo auðvitað kvöldvaka. Á kvöldvökum er mikið sungið, farið í leiki, við sjáum leikrit frá leikhópnum Villiöndin (elsta og virtasta leikfélag í Hvalfirði), við heyrum framhaldssögu og hugleiðingu. Kvöldvökurnar eru ómissandi partur af sumarbúðadvöl í Vatnaskógi.

Matseðill

Morgunmatur: Morgunkorn og súrmjólk.

Hádegismatur: Lasagna, hvítlauksbrauð og salat.

Kaffitími: Jógúrtkaka, HLUNKAsmáKÖKUR og kryddbrauð.

Kvöldmatur: Ávaxtasúrmjólk að hætti Skógarmanna og brauð með áleggi.

Kvöldhressing: Ávextir og kex.

 

Nýjar myndir koma inn reglulega.

 

Hreinn Pálsson – Forstöðumaður

_MG_6616