Góðan daginn (:

Hér í Vatnaskógi eru núna 98 hressir krakkar (66 strákar og 32 stelpur), kökuilmur, góð stemning, rigning og rok.

Blandaði flokkur sumarsins fer ss bara nokkuð vel af stað (fyrir utan veður). Í gær, föstudag, mættu þau á staðinn og byrjuðu á því að raða sér niður á borð. Á hverju borði eru 11-15 börn og allir vinir fá að sitja saman! Hverju borði fylgir foringi, og er sá foringi „Borðforingi“ krakkana á borðinu, og verður út vikuna, þeirra „go to guy“ ef eitthvað bjátar á. Borðfélagar eru einnig herbergisfélagar og þau röðuðu sér niður á herbergi útí Birkirskála, 4-8 saman í herbergi.

Starfsliðið þessa vikuna er topp fólk, flest með mikla reynslu og þaulvant staðnum. Við erum tvö sem þykjumst ráða einhverju hérna, forstöðumaðurinn Benjamín Ragnar og ég, forstöðukonan, Gríma Katrín. Okkur til hægri handar (og vinstri)..(og eiginlega bara allan hringinn) eru 7 foringjar. Þórdís, Kristrún Lilja, Ása Hrönn, Davíð, Friðrik  Páll, Jakob Viðar og Ísak Jón. Þau skipta með sér dagskráliðum og sjá um að það sé nóg í boði. Í eldhúsinu er í fararbroddi kokkurinn Hreiðar Örn Zoega og með honum 4 álfar sem baka, þrífa og segja brandara; Þráinn, Gunnar Hrafn, Hreinn og Fannar Logi.

Hvað börnin varðar .. er bara allt gott að frétta.

ok bæ

nei djók

Hingað til sýnist okkur hópurinn ná mjög vel saman. Margir vinahópar sem komu saman, en eru að bonda við aðra krakka, og bjóða þeim sem komu einir að vera með. Nokkrum til mikils ama, var ekki hægt að bjóða uppá báta í gær, og ef veðrið batnar ekki talsvert, ekki heldur í dag. „Óþolandi“ og „ósanngjart“, en það á að lygna og mögulega kíkir sólinn aðeins seinna í vikunni. Þau börn sem vilja, eru að taka þátt í Svínadalsdeildinni; knattspyrnumót þar sem borðin eru lið og keppa öll á móti öllum. Æsispennandi og hápunktur dagsins fyrir suma. Auk þess var boðið uppá hópleiki, spil og tjill og gönguferð um staðinn fyrir þá sem ekki voru kunnugir staðháttum. Einnig byrjaði frjálsíþróttakeppni flokksins, en börnin fá stig fyrir að mæta og að ganga vel í hinum ýmsu frjálsum íþróttum. Í gær var keppt í langstökki án atrennu og í dag ætla þau að reyna við hástökk. Einhverjir mjög spenntir fyrir þessu og eru komnir í Vatnaskóg til þess eins að verða frjálsíþróttamaður eða -kona flokksins. Annars höfum við rosa lítinn tíma til að bjóða uppá dagskrá, við erum nefnilega alltaf að borða. Kl 9, 12, 3, 6 og 9 eru matartímar, en samt er alltaf einhver svangur. Í matinn í gær voru kjúklingabringur og kartöflur í hádeginu og heimstilbúið laxabuff og kúskús í kvöldmatinn. Í kaffitímanum er í boði 3 tegundir af heimabökuðu bakkelsi; einhver kaka, brauðmeti og eitthvað sætt. Í morgunmat er boðið uppá morgunkorn og hafragraut og í kvöldkaffinu fá þau annað hvort ávexti eða kex. Þau koma ss rúllandi heim (: Nei, þau eru á milljón allan daginn og svæfingin í gær gekk frekar vel þar sem flestir sofnuðu 1, 2 og bingó eftir hörku dag.

Vonum að allt gangi vel áfram og að rokið fjúki einhvert annað.

Fyrir þá sem vilja heyra meira eða spurja um sitt eigið barn, geta hringt í símatímanum (milli 11 og 12). En ef eitthvað kemur uppá eða gengur ekki vel, heyrum við í ykkur að fyrrabragði.

Endilega skoða myndirnar frá flokknum, við reynum að setja myndir inn á hverjum degi og að taka myndir af öllum, en það gengur svona lala þar sem þau eru soldið mörg.

Hér er slóð inná myndasíðuna okkar á flickr: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157715136791373

Kær kveðja Gríma Katrín 😉

PS. Lúsmýið hefur ekki látið á sér kræla ennþá sökum roksins, svo engin bit so far. Vonum bara að því hafi feykt svo langt í burtu að það rati ekki til baka.