Jæja, dagur 2 (lau) gekk bara nokkuð vel fyrir sig. Fyrsta nóttin var frekar róleg, lítið vesen en margir vaknaðir 8:30 þegar við vöktum þau. Hress og til í daginn.

Eftir morgunmat var morgunstund, þar sem börnin heyra sögu úr Biblíunni og syngja lög. Eftir stundina fer svo hvert borð með sínum borðforingja og lærir að fletta upp í Nýja testamentinu. Þau finn og pæla í 2-3 versum á dag, tengdum Biblíusögu dagsins. Svo tók við hefðbundin, frjáls dagskrá. Við gátum ekki boðið uppá báta sökum veðurs en vorum með kassabílarallý, hástökk, ping pong mót, listasmiðju og fótboltamótið var í fullum gangi. Einnig skoraði ég þau í skæri-blað-steinn keppni. Sá sem vann mig oftast í röð, varð skæri-blað-steinn meistari. Fyrir áhugasama vann meistrinn mig 7 sinnum í röð.

Í hádegismat voru ítalskar kjötbollur í sósu og spagetti, með hvítlauksbrauði og salati. Í kaffinu fengu þau bananabrauð, súkkulaðiköku og ávexti. Í kvöldmat var kjúklinga-pasta-salat með sinnepssósu sem rauk út. Það er enginn svangur í Vatnaskógi.

Á kvöldvökunni fengu þau að heyra framhaldið af framhaldssögunni sem byrjaði kvöldið áður. Æsispennandi saga sem Benjamín hættir að segja þegar spennan er sem mest. „Óþolandi“ en „sjúklega spennandi“. Þau hlusta sjaldan jafn vel á okkur. Á kvöldvökunni fengu þau líka að sjá leikrit frá Villiöndinni, leikhópi Vatnaskógar. Svo var hugleiðing og sungið. Eftir allar kvöldvökur er valkvæð kapellustund, þar sem þau geta dregið vers, spurt spurninga og komið með pælingar tengdar trúnni.

Svæfingin gekk svona .. ágætlega bara. Svolítið æst þessar elskur en þau s0fnuðu á endanum. Við vöktum svo hálftíma seinna í dag (sun) eða kl 9:00. Í dag er blanka logn og vatnið spegil slétt. Ég spái því að mörg börn geri lítið annað í dag en að vera úti á bát, og hver veit nema við leyfum þeim að hoppa útí seinna í dag.

Hér er slóð inná myndavefinn okkar: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157715136791373

Kærar kveðjur – Gríma Katrín, forstöðukona (: