Loksins, loksins kom sólin og lognið! Sunnudagurinn fór mest allur í báta hjá mörgum í flokknum. Það var þó ekki nógu og heitt til þess að leyfa þeim að vaða eða hoppa útí vatnið. Þau skilja ekki alveg afhverju við erum „svona lame“ að leyfa þeim það ekki, en það er ekkert leiðinlegra en að verða veikur uppí Vatnaskógi og þurfa að fara heim. Vonandi verður hlýrra á morgun og ég get hætt að vera „lame“ (:

Brjáluð dagskrá í boði allan daginn, sem börnin höfðu eiginlega ekki tíma fyrir – þau voru svo spennt fyrir bátunum. Fótboltamótið hélt áfram, við byrjuðum pool mót fyrir áhugasama, listakeppnin er í fullum gangi og við spiluðum brennó. Keppt var í 1500 metra hlaupi og tímaskynskeppni. Tímaskynskeppni? hvað er það? spurji þið. Jú, þá fá krakkarnir eina tilraun til þess að stoppa skeiðklukku eftir akkúrat 10,00 sek – blindandi. Sá sem nær næst 10 sek vinnur, og tímaskynsmeistarinn að þessu sinni náði að stoppa klukkuna eftir 9,78 sek. Erfiðara en þið haldið.

Eftir hádegismat var farið í svokallaðan hermannaleik. Hópnum var skipt í 2 lið; Oddverja og Haukdæli. Þau fá öll þvottaklemmu sem þau klemmdu í ermina á bolnum sínum. Þau eiga svo að reyna að ná eins mörgum klemmum af hinu liðinu og þau geta. Liðið með fleiri klemmur í lok leiksins vinnur. Það verða alltaf einhverjir árekstrar, og þess vegna var lögmaður á staðnum sem tók, mjög formlega, á móti öllum kvörtunum og ef þau óskuðu eftir því var hægt að ákæra viðkomandi og það var dæmt í málinu. Þyngsti dómurinn var að sópa matsalinn eftir næsta kaffitíma, en það var hægt að losna undan því með því að gefa lögmanninum axlanudd.

Á hádegismat var snitsel. Í kaffitímanum voru brauðbollur og eplakaka og í kvöldmat var ávaxtasúrmjólk sem rauk út. Eftir kvöldmat var kvöldvaka eins og venjulega, en þau eru alltaf mjög spennt að heyra framhaldasöguna og að sjá leikritið.

Mýið er ekki komið til okkar ENNÞÁ! Það er gott veður í spánni áfram svo kannski kíkir það í heimsókn, en vonandi ekki.

Annars bara; mikið hlegið – mikið gaman!

Kær kveðja, Gríma Katrín

PS – Rétt upp hönd sem stoppaði að lesa pistilinn og reyndi að ná 10 sek á skeiðklukku! 😀