Veisludagurinn tókst með eindæmum vel. Vakning kl 9:00, morgunmatur, morgunstund og frjáls dagskrá. Mýið lét aðeins á sér kræla, nokkur börn með nokkur bit, en ekkert eins og fyrr í sumar. Fylgir því að koma útí sveit, en það er ekkert barn að farast úr kláða. Í hádeginu var svikinn héri og í kaffinu fengu þau krem með smá köku og súkkilaðibitakökur. En hafið ekki áhyggjur, þau hlaupa þetta allt af sér og meira en það. Eftir kaffitímann var foringjaleikur í fótboltanum. Tilkynnt var hverjir komust í stjörnu-og draumaliði sem keppti svo sitthvorn hálfleikinn við foringjana. Valið í liðin var byggt á hegðun krakkana, inná vellinum sem utan, en líka færni í fótbolta. Leikurinn var æsispennandi en þau unnu okkar á lokametrunum. Ég er ekki að djóka, það var 3-3 þegar það voru 2 mín eftir og þau unnu 5-3. Við endumst greinilega bara í 35 mín. Note to self að hafa leikina það langa, hér eftir.
Svo fóru allir að gera sig sæta og fína fyrir veilsukvöldmatinn. Í matinn voru dýrindis hamborgarar, picnic og gos. Bara svona af því að þau fá svo lítinn sykur. Eftir matinn var veilsukvöldvaka þar sem þau sáu hvorki meira né minna en 4 leikrit. Það var biblíuspurningakeppni sem 4. borð endaði á því að vinna. Það var sýnt Sjónvarp Lindarrjóður sem tekið var upp í vikunni og þau fengu að heyra lokinn á framhaldssögunni góðu (en þar sem að einhver börn spurðu um hvaðan framhaldssagan væri, þá var hún byggð á bókinni Barist til sigurs eftir Jan Terlouw, vonandi er hana enn að finna á einhverjum bókasöfnum fyrir áhugasama). Einnig var tilkynnt um úrslit í öllum greinunum sem keppa var í þessa vikuna. Kvöldkaffi að vana, beint eftir kvöldvöku og svo H-in þrjú: hátta – bursta – pissa.
Svæfing og svefninn í heild sinni gekk vel, enda útkeyrð börn hér á ferð. Í dag, miðvikudag, pakka börnin (vonandi) öllu sínu dóti eftir morgunmat. Ef þið saknið einhvers þegar þau koma heim, fara allir óskilamunir niður á Holtaveg 28. Í matinn verður pizza og eftir það seinasti frjálsi tíminn. Lokastund kl 2 og kaffi kl 3. Börnin leggja svo af stað kl 16 og komin í bæinn kl 17. SIRKA! Fer eftir því, hversu mörg þeirra gleyma að pissa áður en þau fara uppí rútuna. Ef þið sækið börnin hingað, vita þau það líklegast en ef þið eruð í vafa, endilega hafið samband svo við sendum þau ekki á mis við ykkur.
Þá held ég að ég hafi ekkert meira að segja, nema kannski bara takk fyrir að treysta okkur fyrir börnunum ykkar. Við vonum að þau hafi notið dvalarinnar, það var yndislegt að kynnast þeim. Sjáum svo vonandi sem flest aftur á næsta ári.
Takk fyrir lesturinn, börnin og mig.
Kveðja Gríma Katrín (: