Sæludögum 2020 í Vatnaskógi aflýst
Skógarmenn KFUM, sem reka sumarbúðir í Vatnaskógi, hafa tekið þá ákvörðun að aflýsa Sæludögum í Vatnaskógi um verslunarmannahelgina.
Sæludagar eru fjölskylduhátíð í anda sumarbúða KFUM og KFUK sem haldin hefur verið í Vatnaskógi samfellt frá 1992. Í ár var í undirbúningi hátíð þar sem samkomutakmarkanir yrðu að fullu virtar og búið að gera aðrar ráðstafanir í fullu samræmi til tilmæli Embættis landlæknis. Það er aftur á móti mat stjórnar Skógarmanna KFUM að ekki sé lengur forsvaranlegt að halda fyrirhugaða fjölskylduhátíð í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru komnar upp á ný.
Uppbygging og starfsemi Vatnaskógar byggist að miklu leyti á framlögum sjálfboðaliða í verkefnum líkt og Sæludögum. Við erum þakklát þeim fjölmörgu aðilum sem hafa undanfarna daga staðið í ströngu við undirbúning hátíðarinnar sem og þeim sem höfðu tryggt sér þá aðgöngumiða sem í boði voru.
Skógarmenn munu að sjálfsögðu að fullu endurgreiða aðgöngu- og gistikostnað sem þátttakendur hafa greitt en eru einnig þakklát þeim sem myndu vilja styðja við starfsemina.
Vatnaskógur, 30. júlí 2020