Það var flottur hópur drengja sem lagði af stað upp í Vatnaskóg í gær. Við komuna var haldið inn í matsal þar sem farið var yfir helstu atriði og dagskráin framundan kynnt. Eftir að drengirnir höfðu komið sér vel fyrir í herbergjunum var boðið upp á steiktan fisk og meðlæti, að hætti Vatnaskógar.

Við náðum að hafa bátana opna frá fyrsta degi, enda nánast logn en smá rigning.  Sumir nýttu tímann í að veiða og það gleður okkur að tilkynna að fyrsti fiskur sumarsins er kominn í hús og fylgdi annar strax í kjölfarið. Veiðisumarið í Vatnaskógi fer virkilega vel af stað.

Greinilegt var að mikil eftirvænting var hjá mörgum að komast í Vatnaskóg og mikil spenna þegar komið var á staðinn. Listasmiðjan var opnuð en hún nýtur alltaf mikilla vinsælda. Kvöldið var endað á góðri kvöldvöku í Gamla skála þar sem drengirnir fengu að heyra hugleiðingu ásamt því að leikrit var flutt og kveikt var upp í arninum, svo eitthvað sé nefnt.

Flestir voru orðnir þreyttir þegar leið á kvöldið og var eflaust gott að leggjast í koju eftir fyrsta daginn.

Nú í morgun fengu strákarnir að heyra um stofnanda Vatnaskógar og upphafsár starfsins.

Við höldum áfram bjóða upp á báta og veiðar ásamt því að keyra ýmis mót í íþróttahúsinu í gang. Það stefnir í flottan dag hjá okkur í dag.

 

Bestu kveðjur úr Vatnaskógi

Ásgeir Pétursson, forstöðumaður