Þá er síðasti heili dagurinn runninn upp hjá okkur í Vatnaskógi en hann er jafnan kallaður veisludagur. Það verður flott dagskrá í dag sem endar með hátíðarkvöldverði og skemmtilegri kvöldvöku í kvöld.

Í gær var veðrið ekki upp á sitt besta hjá okkur og blés hressilega á svæðinu. Listasmiðjan og smíðaverkstæðið voru vinsælir staðir hjá mörgum. Einnig var boðið upp á ýmsar keppnir í íþróttahúsinu.

Seinni partinn í gær fannst kort af svæðinu en þar mátti greina X sem hafði verið merkt inn kortið. Það var því góður hópur sem fór út í skóg með málmleitartæki og skóflur í þeim tilgangi að finna fjársjóðinn sem er mögulega falinn á svæðinu, það skilaði þó ekki miklum árangri að þessu sinni og má ætla að hann sé ófundinn.

 

Við minnum á að heimkoma á Holtaveg 28 verður um kl. 14 á morgun, sunnudag.

 

Við þökkum kærlega fyrir flokkinn og vonumst til að sjá sem flesta á næsta ári.

 

Bestu kveðjur úr Vatnaskógi

Ásgeir Pétursson, forstöðumaður