Þá er 5. dvalarflokkur sumarsins í Vatnaskógi hafinn og 99 drengir mættir á staðinn fullir tilhlökkunar yfir ævintýrum næstu daga. Við komuna í Vatnaskóg fóru drengirnir í matsalinn og fundu sér borð, en í matsalnum eru 7 borð og sitja á hverju borði 12-16 drengir ásamt foringja (leiðbeinenda). Hvert borð myndar hóp og eru drengirnir í sama hóp allan flokkinn og keppa sem lið í hinum ýmsu keppnum og mótum sem fram fara í Vatnaskógi. Eftir að drengirnir komu sér fyrir í herbergjum sínum í Birkiskála fengu þeir hádegismat og var að þessu sinni boðið upp á ljúfengar kjötbollur. Eftir hádegismat hófst leikjadagskráin með hópleikjum á kapelluflötinni, en allir drengirnar koma þá saman og taka þátt í ýmsum samhristingsleikjum. Það var eins og venja er í Vatnaskógi kraftmikil dagskrá fram eftir degi og fóru flestir drengir á báta, eins hófst fótboltamótið og voru spilaðir nokkrir leikir í Svínadalsdeildinni, frjálsíþróttamótið hófst á kúluvarpi og 60m hlaupi. Í íþróttahúsinu er alltaf margt í boði og bauð Guðmundur innileikjaforingi upp á borðtennismót og biljardmót. Friðrik útileikjaforingi bauð upp á ævintýraleik í skóginum og kynnisferð um staðinn fyrir drengi sem ekki hafa komið til okkar áður. Í dag er dásamlegt veður sól, logn og 18 stiga hiti og minnum við alla á að nota sólarvörn. Þegar veðrið er gott er alltaf gaman að vera á bátum og vaða (synda) í vatninu undir vökulu auga leiðbeinenda. Símatíminn er á milli 11 og 12 alla daga og er öllum velkomið að hringja og spyrja frétta af börnum sínum.

Mydnir úr flokknum munu birtast hér.

Jón Ómar Gunnarsson og Þráinn Haraldsson, forstöðumenn.