Drengirnir voru vaktir klukkan 8:30 í morgun með ljúfum tónum. Hér er svipað veður og í gær, skýjað og 11-13 stiga hiti.
Í dag verður sannkölluð knattspyrnuveisla, 4 leikir í svínadalsdeildinni fyrir hádegi, 5 leikir eftir hádegismat og 5 leikir eftir kaffitímann. Eftir kvöldmat sýnum við svo seinni undanúrslitaleikinn á EM allstaðar, Danmörk vs England. Þvílíkur fótboltadagur
Það hafa auðvitað ekki allir áhuga á fótbolta þannig að samhliða fótboltanum verður pökkuð dagskrá í boði: bátar, smíðaverkstæði, kassabílarallý, íþróttahús, borðtennis- og poolmót, 60m hlaup og spjótkast, listakeppnin byrjar og svo er auðvitað spilastund í Birkiskála alltaf í boði.
Í kvöld er svo kvöldvaka eins og öll kvöld í Vatnaskógi. Á kvöldvökum er mikið sungið, farið í leiki, við sjáum leikrit frá leikhópnum Villiöndin (elsta og virtasta leikfélag í Hvalfirði), við heyrum framhaldssögu og hugleiðingu. Kvöldvökurnar eru ómissandi partur af sumarbúðadvöl í Vatnaskógi.
Matseðill
Morgunmatur: Morgunkorn og súrmjólk.
Hádegismatur: Lambapottréttur og bakaðarkartöflur.
Kaffitími: Jógúrtkaka og pizzasnúðar.
Kvöldmatur: Súpa og brauð.
Kvöldhressing: Ávextir og kex.
Myndir koma inn eftir hádegi í dag.
Hreinn Pálsson – forstöðumaður