Þriðji dagur flokksins er gengin í garð og óhætt að segja að það er pökkuð dagskrá framundan. Bátar, smíðaverkstæði, frjálsar íþróttir, knattspyrna, íþróttahús, spil í birkisal, listakeppni og margt fleira.
Eftir hádegismat förum við í hermannaleikinn. Hermannaleikurinn virkar þannig að við skiptum hópnum í tvennt, 50 vs 50, og kallast liðin Oddverjar og Haukdælir. Oddverjar labba út í Oddakot og bíða þar eftir Haukdælum. Leikurinn gengur út á það að ná klemmum af öxl drengjanna í hinu liðinu. Ef þú missir þína klemmu þá þarft þú að fara aftur í bækistöðvar og ná í nýja klemmu. Liðið sem safnar fleiri klemmum vinnur leikinn. Svo vegna góða veðursins munum við bjóða upp á vatnafjör eftir kaffi. Það er ekki sól en það er hiti, eftir kaffi er spáð 15 stiga hita. Við bjóðum svo auðvitað upp á heitu pottana líka.
Merkilegur atburður átti sér stað í morgun, þegar drengirnir vöknuðu voru þeir allir orðnir að Skógarmönnum en það gerist þegar einstaklingur hefur dvalið tvær nætur í Vatnaskógi. Þar með eru þeir komnir í hóp tugþúsunda Íslendinga sem geta kallað sig Skógarmenn.
Matseðill
Morgunmatur: Nýbakað brauð og rjómalagað kakó.
Hádegismatur: Steiktur fiskur, bakaðar kartöflur og grænmeti.
Kaffitími: Sjónvarpskaka, döðlubrauð og karamellulengjur.
Kvöldmatur: Grillaðar pylsur.
Kvöldhressing: Ávextir og kex.
Við setjum inn nýjar myndir í dag.
Hreinn Pálsson – forstöðumaður