Börnin voru vakin kl 08:30 í morgun og voru þau ekki lengi á fætur, nóttin gekk eins og í sögu og sváfu allir mjög vel. Þegar börnin vöknuðu klæddu þau sig og gerðu sig tilbúin fyrir daginn og fóru svo í morgunmat. Síðan fóru þau á morgunstund og svo var fjölbreytt dagskrá en meðal annars var boðið uppá báta, smíðaverkstæði og spretthlaup fram að hádegismat. Gaman er að segja frá því að nýtt skógarmet var sett í dag í 60 m spretthlaupi 12-13 ára stúlkna! Það gerist ekki oft svo þetta er mjög gleðilegt! En ein stelpa hér í flokknum hljóp 60 m á 9,40 sek! Fyrra met var 9,90 sek svo þetta var bæting um hálfa sekúndu!
Í dag hefur verið heldur skýjað en við látum það svo sannarlega ekki stoppa okkur. Vatnafjör er í fullum gangi út á vatni þar sem að börnin fá tækifæri til þess að synda í Eyrarvatni, vaða og hafa rosa gaman. Það var mjög vinsælt að fara út a prammann og rugga honum. 🙂 Heitir pottar eru einnig opnir þannig að þau hafi tækifæri á að hlýja sér eftir að hafa synt og leikið sér í vatninu.
Það vilja auðvitað ekki allir vera ofan í vatninu og ekki allan daginn heldur en þá er í boði að fara í langstökk með adrennu, skotbolta úti, vera í þythokkí, borðtennis, billiard eða frjálst í íþróttahúsinu. Einnig höfum við frábæra kassabíla og stangatennis leikvelli hér og þar um svæðið sem að börnin eru dugleg að nýta sér.
Eftir kaffi hélt vatnafjör áfram, boðið var upp á að keppa í fótbolta, foosball mót, listakeppni, rólegan stað með syrpum, vinabandagerð og spilum ásamt því að smíðaverkstæðið var að sjálfsögðu opið áfram. Stanslaust stuð! 😀
Núna eru börnin úti að borða grillaðar pylsur. 🙂 Í kvöld mun svo kvöldvakan vera á sínum stað eins og alla aðra daga með söng, leik, hugleiðingu og ekki má gleyma framhaldssögunni sem mörg barnanna bíða æsi spennt eftir. Á kvöldvöku er síðan alltaf leikrit frá leikhópnum Villiöndin (elsta og virtasta leikfélag í Hvalfirði). Kvöldvökurnar eru ómissandi partur af sumarbúðadvöl í Vatnaskógi en þar myndast mikil stemming og börnin tengjast oft mjög vel.
Matseðill
Morgunmatur: Morgunkorn, súrmjólk og hafragrautur.
Hádegismatur: Kjúklingaleggir, kartöflur, salat,
Kaffitími: Eplakaka og skinkuhorn
Kvöldmatur: Grillaðar pylsur og allt tilheyrandi með
Kvöldhressing: Ávextir og kex.
Ég minni á að myndir koma inn á síðuna hér en við reynum að setja inn myndir jafn óðum ef það er hægt:
https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157719555396878/with/51319343941/
Þangað til næst.
Tinna Dögg Birgisdóttir , forstöðumaður.