Þriðji dagur flokksins er hafinn, börnin voru vakin á sama tíma, kl. 08:30 og var farið beint í morgunmat svo í fánahyllingu og þaðan yfir á morgunstund. Nóttin gekk prýðilega og sváfu allir vel en lúsmýið er farið að láta sjá sig og hafa einhverjir fengið að finna nokkrum bitum. Óhætt er að segja að dagskráin sé þétt og mun dagurinn bjóða upp á ýmis ævintýri. Bátar, smíðaverkstæði, frjálsar íþróttir, íþróttahús, spil í birkisal, listakeppni og margt fleira.

Í gærkvöldi var haldið grill pylsu partý úti og fylgdi því mikil stemming, gaman var að breyta til og borða kvöldmatinn úti. Beint á eftir grill partýinu var blásið til dodge-ball móts þar sem að heimaborðin kepptu hver á móti öðru í útsláttarkeppni. Borð 1 vann öll hin heimaborðin og keppti þar að leiðandi við foringjana og má segja að mikil barátta hafi verið í þeim leik. 1.borð unnu foringjana og eru þar að leiðandi dodge-ball meistarar flokksins.

Nú fyrir hádegismat er boðið upp á langstökk án atrennu og kassabílarallý sem er að njóta gríðarlegra vinsælda meðal barnanna. Mikil spenna er í hópnum að ná að slá fleiri Skógarmet og sýnist okkur á öllu að sum börnin munu fara heim með þó nokkur met með sér. Mikið keppnisskap er í hópnum sem gerir þetta enn meira spennandi.

Eftir hádegismat förum við í hermannaleikinn. Hermannaleikurinn virkar þannig að við skiptum hópnum í tvennt, 50 vs 50, og kallast liðin Oddverjar og Haukdælir.  Leikurinn gengur út á það að ná klemmum af öxl drengjanna í hinu liðinu. Ef þú missir þína klemmu þá þarft þú að fara aftur í bækistöðvar og ná í nýja klemmu. Liðið sem safnar fleiri klemmum vinnur leikinn. Eftir leikinn hefst almenn dagskrá þar sem að bátar og smíðaverkstæði opna. Boðið verður upp á fleiri frjálsar íþróttir og fjölbreytta dagskrá.

Ef að veður leyfir og mun haldast líkt og spáin gerir grein fyrir munum við bjóða upp á tuðru-drátt út á vatninu eftir síðdegis kaffi. Að sjálfsögðu helst önnur dagskrá opin fyrir þá sem að vilja ekki taka þátt í busla í vatninu.

Merkilegur atburður átti sér stað í morgun, þegar börnin vöknuðu voru þau öll orðin að Skógarmönnum en það gerist þegar einstaklingur hefur dvalið tvær nætur í Vatnaskógi. Þar með eru þau komin í hóp tugþúsunda Íslendinga sem geta kallað sig Skógarmenn. Við fögnum því svo sannarlega! 🙂

Við minnum á að við setjum reglulega myndir inn.

 

Matseðill

Morgunmatur: Morgunkorn, súrmjólk og bakaður hafragrautur (lúxus útgáfan). Fyrir grænkera verður boðið upp á fylltar paprikur.

Hádegismatur: Gufusoðinn þorskur með soðnum kartöflum, rjómalagaðri blómkálssósu, lauk-papriku-eplamauki ásamt salati.

Kaffitími: Jógúrtkaka og pizzasnúður.

Kvöldmatur: Pasta, bæði kjúklinga og grænmetis með heimagerðri sinnepssósu.

Kvöldhressing: Ávextir.

 

Fyrir kvöldið er síðan verið að undirbúa háleynilegan viðburð sem mun slá rækilega í geng. Hlakka til að geta sagt ykkur betur frá því á morgun en allir þeir sem vita af því eru rosalega spenntir.

Yfir og út, þangað til á morgun

Tinna Dögg Birgisdóttir , forstöðumaður.