Áfram að markinu! Í morgun voru krakkarnir vakin kl. 8:45 þar sem þau sváfu enn vært. Stuðið eftir náttfatapartýið hefur tekið sinn toll. Þessi háleynilegi atburður sem átti sér stað í gærkvöldi var s.s. náttfatapartý, eftir kvöldkaffi var farið rakleiðis í Birkiskála þar sem var mikið dansað, flippað undir hressandi diskóljósum og tónlist.
Fyrir hádegi er í boði: Hástökk í íþróttahúsinu sem er ávallt skemmtilegt fyrir krakkana að prufa. Einnig hófst stangartenniskeppni, poolmótið klárað og hægt er að mála smíðagripi í smíðaverkstæðinu.
Eftir hádegi er í boði: Víðavangshlaup (í kringum Eyrarvatn = 4.2 km), Ultimate frisbie, Svínadalsdeildin í blússandi siglingu og bátar opnir.
Eftir kaffi er í boði: Bátar (að sjálfsögðu), fús(a)boltamót, fótboltinn á sínum stað og einnig verður hægt að skrá á hæfileikasýningu sem verður á kvöldvökunni.
Það er nóg að gera hér og þó að við auglýsum dagskrá þá er ýmislegt hægt að gera sér til dundurs t.d. njóta náttúrunnar eða slappa af í Birkisal. Í gær hinsvegar ítrekuðum við foringjar að ALLIR þyrftu að fara í sturtu & skipta um nærföt ef þau væru ekki búin. Pottarnir voru opnir og mikið stuð.
Við lúðraþyt er ávallt kallað inn í matartíma og á matseðlinum á fjórða degi er:
Morgunmatur: Morgunkorn, súrmjólk og hafragrautur.
Hádegismatur: Snitzel bollur og grænmeti.
Kaffitími: Sjónvarpskaka og súkkulaðibitasmákökur.
Kvöldmatur: Vefjur og meþþí.
Kvöldhressing: Ávextir.
Yfir og út, þangað til á morgun. Minnum á símatíma og endilega lítið á myndirnar sem hlaðast inn á hverjum degi.
Bogi Benediktsson, forstöðumaður.