Þá er fyrsta degi 9. flokks lokið og þreyttir drengir lögðust á koddann sinn eftir viðburðaríkan og spennandi fyrsta dag. Það verður að segjast að þessi flokkur hefur byrjað hreint ótrúlega vel, drengirnir eru fullir af orku, prúðmiklir og kurteisir, duglegir að taka þátt í frjálsum tíma og eru til mikils sóma. Ef fram fer sem horfir er ljóst að hegðunarkeppnin verður hrikalega jöfn og spennandi. Heimþráin lét sjá sig þennan fyrsta dag þegar leið á kvöldið eins og við mátti búast en hrjáði ansi fáa.
Dagskrá dagsins
Dagur tvö verður uppfullur af ævintýrum en á dagskrá er m.a. Svínadalsdeildin (knattspyrnumótið), frjálsar íþróttir líkt og 60 m. spretthlaup og langstökk, ævintýraleikir í skóginum, poolmót í íþróttahúsinu, heitir pottar og margt fleira. Eftir kvöldmat er áætlað dodgeballmót í íþróttasalnum þar sem borðin keppa sín á milli um glæsilegan bikar. Drengirnir hafa ekki látið rigninguna fara í taugarnar á sér og leika við hvurn sinn fingur utandyra, ýmist á bátum, í knattleik, öðrum íþróttum eða útileikjum, en njóta þess sömuleiðis að sitja inni í hlýjunni að lesa úrvalsbókmenntir um Andrés Önd og félaga, spila Olsen Olsen og fleira. Reikna má með svipuðu veðurfari í dag en hér er uppfærð veðurspá fyrir vikuna frá okkar manni á Veðurstofu Íslands, Páli Ágústi Þórarinssyni.
Veður
Laugardagur 24. júlí
Suðvestanátt og í góðu skjóli í skóginum. Minniháttar rigning með köflum þar til fer að rigna um kaffi og fram yfir kvöldmat. Hiti 8 til 12 stig.
Sunnudagur 25. júlí
Suðaustan- eða austanátt, 8-13 m/s en dáítið hægari inn í skógi. Lágskýjað og fer að rigna um hádegi. Hiti 8 til 13 stig.
Mánudagur 26. júlí (veisludagur)
Sunnan eða suðaustan 3-10 m/s og rigning með köflum. Skúra kenndara eftir hádegi. Austlægar í átt, dálítið hægari og úrkomuminna síðdegis. Fer að létta til með kvöldinu Hiti breytist lítið.
Þriðjudagur 27. júlí (brottfarardagur)
Snýst í norðaustan 3-10 m/s, hvassast úti á vatni og íþróttavelli. Bjart með köflum og kólnar lítillega.
Matseðill dagsins
Morgunverður: Rjúkandi heitt kakó og brauð með fjölbreyttu úrvali af áleggi
Hádegisverður: Fiskur í raspi m. kartöflum, salati og kokteilsósu
Nónhressing: Súkkulaðikaka, kanilsnúðar og ávextir
Kvöldverður: Ávaxtasúrmjólk að hætti Skógarmanna og brauðbollur
Kvöldhressing: Kex og mjólk
Minnum á símatíma forstöðumanns alla daga milli kl. 11:00-12:00. Símanúmerið er: 433 8959.
Myndir koma hér inn:
Meira síðar.
Með virðingu og þökk,
Gunnar Hrafn Sveinsson, forstöðumaður