Annasömum degi lauk í gær og drengirnir sváfu vært sína aðra nótt hér í Skóginum. Um 70% drengjanna fóru að sofa í gær sem ,,óbreyttir“ einstaklingar en vöknuðu í morgun sem Skógarmenn og bættust þar með í hóp tugþúsunda Íslendinga sem hafa dvalið hér í Vatnaskógi í dvalarflokki í að lágmarki tvær nætur. Því ber að sjálfsögðu að fagna enda alltaf ánægja þegar nýir Skógarmenn bætast í hópinn.

Dagskrá dagsins

Á döfinni eru ýmsir dagskrárliðir. Kristalsbikarinn í knattspyrnu hefur göngu sína, frjálsar íþróttir á sínum stað þar sem spjótkast og hástökk verða í fyrirrúmi, ýmsir útileikir á svæðinu, bátar, smíðaverkstæði og þythokkímót svo fátt eitt sé nefnt. Að auki munu allir drengirnir taka þátt í svonefndum Hermannaleik eftir hádegi, þar sem þeim verður skipt í tvö lið, Oddverja og Haukdæli. Leikurinn gengur út á að ná klemmu af öxl mótherjans og færa hana í fötu á sína bækistöð. Það lið sem safnar flestum klemmum, sigrar. Að auki er hægt að vinna sér inn bónusstig með því að ná höfuðfati Skógardýranna (sem leikin eru af aðstoðarforingjunum okkar).

Páll Ágúst Þórarinsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands hefur þetta að segja um veðrið næstu daga.

Veður

Sunnudagur 25. júlí
Suðaustan- og síðar sunnanátt, 8-13 m/s en dáítið hægari inn í skógi. Lágskýjað og fer að rigna um hádegi. Hiti 8 til 13 stig.

Mánudagur 26. júlí (veisludagur)
Sunnan eða suðaustan 3-10 m/s og rigning með köflum. Skúra kenndara eftir hádegi. Austlægar í átt, dálítið hægari og úrkomuminna síðdegis. Fer að létta til með kvöldinu. Hiti breytist lítið.

Þriðjudagur 27. júlí (brottfarardagur)
Snýst í norðaustan 3-10 m/s, hvassast úti á vatni og íþróttavelli. Bjart með köflum og svipaður hiti í sólinni.

Matseðill dagsins

Morgunverður: Morgunkorn og allt tengt slíku fæði
Hádegisverður: Nautagúllas í brúnni sósu ásamt Skógarmannakartöflumús
Nónhressing: Sjónvarpskaka, karamellulengjur og ávextir
Kvöldverður: Lasagne að hætti kattarins Grettis
Kvöldhressing: Ávextir

Hugleiðingar og Biblíulestur

Á morgunstund gærdagsins lærðu drengirnir um sr. Friðrik Friðriksson, stofnanda KFUM og KFUK, Vatnaskógar og fleiri félaga. Á biblíulestri með foringjanum sínum lásu þeir um þegar Jesús mettaði 5000 manns og um kvöldið heyrðu þeir hugleiðingu um Miskunnsama Samverjann. Fyrsta kvöldið fengu drengirnir að heyra um mennina sem byggðu hús sitt á bjargi og sandi og nú í kvöld munu þeir heyra söguna um Týnda soninn. Á morgunstundinni í dag verður lesin fyrir þá sagan ,,Þú ert frábær“ eftir rithöfundinn Max Lucado, í þýðingu sr. Guðmundar Karls Brynjarssonar. Sagan fjallar um Gussa litla og Vimmana en boðskapur hennar er sá að við eigum ekki að láta álit annarra hafa of mikil áhrif á okkar líf, að við eigum ekki að lyfta sumu fólki á stall og finnast einn merkilegri en einhver annar, að við séum frábær eins og við erum.

Annars minni ég á símatíma forstöðumanns alla daga milli kl. 11:00-12:00. Símanúmerið er: 433 8959.

Myndir koma hér inn:

Meira síðar.
Með vinsemd og virðingu,
Gunnar Hrafn Sveinsson, forstöðumaður