Stuðið heldur áfram hjá okkur í Vatnaskógi. Dagurinn í gær var góður og héldu drengirnir áfram að skemmta sér vel hjá okkur. Vatnið var vinsælt eins og oft áður, þar skelltu margir sér á báta eða fóru að vaða í fjöruborðinu.

 

Listasmiðjan var opin þar sem boðið var upp á ýmis verkefni og hægt að hlusta á tónlist og spjalla. Smíðaverkstæðið var einnig í fullum gangi og geta menn hannað og smíðað hluti sem hægt er síðan að mála í listasmiðjunni.

 

Í dag er merkilegur dagur þar sem allir eru nú orðnir Skógarmenn, en þann titil fá þeir sem hafa gist í tvær nætur í Vatnaskógi. Dagurinn byrjaði á kakói og heimabökuðu brauði í morgunmat. Í dag ætlum við meðal annars að bjóða upp á frjálsar íþróttir ásamt því að haldið verður leiklistarnámskeið og planið er að strákarnir fái að sýna leikrit á kvöldvöku. Í kvöld verður einnig hæfileikasýning þar sem drengirnir fá að að spreyta sig og sýna hvað í þeim býr.

 

Bestu kveðjur úr Vatnaskógi

Ásgeir Pétursson, forstöðumaður