Það er spennandi dagur framundan í Vatnaskógi í dag. Drengirnir voru vaktir 8:30 í morgun með ljúfum tónum. Nóttin gekk mjög vel, allir sváfu og lítið um heimþrá.

Í dag bjóðum við upp á fótbolta, frjálsar íþróttir, smíðaverkstæði, heita potta, íþróttahús, útileiki, körfubolta, listakeppni og margt fleira.

Eftir hádegismat verður farið í klemmuleikinn. Klemmuleikurinn virkar þannig að við skiptum hópnum í tvennt, 50 vs 50, og kallast liðin Oddverjar og Haukdælir. Oddverjar labba út í Oddakot og bíða þar eftir Haukdælum. Leikurinn gengur út á það að ná klemmum af öxl drengjanna í hinu liðinu. Ef þú missir þína klemmu þá þarft þú að fara aftur í bækistöðvar og ná í nýja klemmu. Liðið sem safnar fleiri klemmum vinnur leikinn. Í oddakoti er glæsileg strönd með mjúkum sandi þannig að við munum bjóða drengjunum upp á að vaða eftir leikinn, costa del Oddakot köllum við það.

Það er mjög breytilegt veður hér í Skóginum. Sól og rigning til skiptis og 12 stiga hiti. Ekki mikill vindur en smá gola af og til sem er gott upp á flugur að gera. Ég mun hringja í einn af okkar bestu veðurfræðingum í dag, Theodór Frey Hervarsson, og spyrja hann út í veðrið. Fá svör og biðja hann um að laga veðurspána.

Fyrsti fiskur flokksins og sumarsins veiddist í dag, óhætt að segja að mikil fagnaðarlæti brutust út þegar það gerðist!

Matseðill – Dagur 3

Morgunmatur: Brauð með allskonar áleggi og rjómalagað kakó.

Hádegismatur: Kjúklingaréttur, hrísgrjón og grænmeti.

Kaffitími: Kaka, bananabrauð og kókosbollur.

Kvöldmatur: Skyr og brauð með allskonar áleggi.

Kvöldhressing: Ávaxtaveisla.

Fleiri myndir eru komnar á linkinn hér að neðan.

Hreinn Pálsson – forstöðumaður

Vatnaskógur