Það er 17.júní í dag og munum við halda hátíðlega upp á hann. Eftir morgunmat fórum við á fánahyllingu. Það er óhætt að segja að þetta hafi verið stærsta fánahylling sumarsins. Við flögguðum íslenska fánanum á sjö fánastöngum á sama tíma með íslenska þjóðsöngin í hátalarakerfinu. Þetta var gæsahúð fyrir allan peninginn. Eftir morgunstund var farið í skrúðgöngu frá Gamla skála og að íþróttahúsinu. Fyrir framan íþróttahúsið er falleg brekka. Við stoppuðum fyrir framan brekkuna og hlýddum á Fjallkonuna flytja ljóð eftir Margréti Jónsdóttur, Ísland er land þitt.

Seinna í dag verður svo boðið upp á hoppukastala, mótorbátsferðir, heita potta, kassabílarallý, fótbolta, frjálsar íþróttir, smíðaverkstæði og margt fleira.

Veðrið er ágætt í dag. Það er samt of hvasst til að fara á báta því miður en mótorbátsferðirnar ættu að bæta það upp að einhverju leiti.

Í dag fer fram foringjaleikurinn í knattspyrnu en þá skora úrvalslið foringja á drengina í knattspyrnu. Við foringjarnir höfum æft í allan vetur fyrir þennan leik og nú er komið að stóru stundinni! Eigum við séns eða verður okkur pakkað saman, það er spurningin. Við hikum ekki við að liggja til baka og pakka í vörn. Sjáum hvað setur.

Hér fyrir neðan er svo linkur á myndasíðu KFUM og KFUK á Íslandi. Það koma myndir inn á þessa síðu reglulega.

Matseðill 17.júní

Morgunmatur: Morgunkorn og súrmjólk.

Hádegismatur: Grillaðar pylsur.

Kaffitími: Nýbökuð, fánaskreytt súkkulaðikaka par excellence, kanillengjur og HLUNKAKÖKUR.

Kvöldmatur: Léttbankaðar Vínarsnitzelsneiðar með brúnni sósu, bökuðum kartöflum, salati, maís og grænum baunum, rauðkál og gos í bauk.

Kvöldhressing: Ávextir og kex.

 

Hreinn Pálsson – forstöðumaður

Vatnaskógur