Drengirnir voru vaktir klukkan 9:00 í morgun með ljúfum tónum. Í dag bjóðum við upp á hefðbundna dagskrá að mestu leiti eins og t.d. fótbolta, smíðaverkstæði, íþróttahús, frjálsaríþróttir og spil í Birkisal. Því miður er ekkert bátaveður í dag. Hér er sterk norðaustanátt sem kælir mikið og tekur bátana úr umferð. Vonum að það lægi þegar líður á daginn. Eftir kaffi stefnum við á að bjóða upp á fjallgöngu. Ferðinni er heitið upp á Kambinn sem er fjallið á móti Vatnaskógi, hinumegin við vatnið. Í kvöld verður boðið upp á allskonar stöðvar þar sem spennandi dagskrá fer fram. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Í gærkvöldi fór fram æsispennandi DODGEBALL keppni milli borðanna. Þetta byrjaði allt í kvöldkaffinu þegar borðforingjarnir fóru að metast sín á milli um hver væri með besta borðið. Það sauð allt uppúr og að lokum var ákveðið að útkljá þetta í DODGEBALL leik. Ekki veit ég hver vann, enda skiptir það engu máli, en drengirnir elskuðu þetta.

Matseðill

Morgunmatur: Morgunkorn og súrmjólk.

Hádegismatur: Plokkfiskur og rúgbrauð.

Kaffitími: Kanillengjur, jógúrtkaka og ávextir.

Kvöldmatur: Ávaxtasúrmjólk og brauð.

Kvöldkaffi: Mjólkurkex og pólókex.

Nýjar myndir komnar inn.

Hreinn Pálsson – forstöðumaður

Vatnaskógur