Drengirnir voru vaktir 9:00 í morgun, morgunmatur var 9:30 og morgunstund 10:00. Í kvöld er svo kvöldvaka með leikriti, framhaldssögu, hugleiðingu og söng. Við byrjum daginn saman, við endum daginn saman, þannig er það.

Hér er gott veður, sólin skín, smá gola og 16 stiga hiti. Frábært bátaveður í alla staði.

Eftir hádegi og eftir kaffi munum við bjóða upp á vatnafjör, við munum draga þá sem vilja á tuðru um eyrarvatn með spíttbátinum okkar góða, mjög skemmtilegt allt saman. Heitir pottar líka, mikilvægt að fara í heitu pottana eftir sundsprett í Eyrarvatni.

Í kvöld er mikil ævintýradagskrá sem verður sagt betur frá á morgun.

Í gærkvöldi var boðið upp á framlengingu á deginum en þá gátu drengirnir valið um nokkrar stöðvar til að fara á. Í Gamla skála var boðið upp á mafíu, í Birkiskála var boðið upp á listakeppni, spil og kósý, í íþróttahöllinni var boðið upp á borðtennis, pool og íþróttasalinn, í bátaskýlinu var smíðaverkstæðið opið. Þetta vakti mikla lukku meðal drengjanna.

 

Matseðill

Morgunmatur: Morgunkorn, súrmjólk og hafragrautur.

Hádegismatur: Svikinn héri, brún sósa, kartöflur og salat.

Kaffitími: Kanilsnúðar, tebollur og ávextir

Kvöldmatur: Rjómalöguð blómkálssúpa og nýbakað brauð.

Kvöldkaffi: Ávextir og kex.

Myndir, myndir, sagði einhver myndir?

Hreinn Pálsson – forstöðumaður

Vatnaskógur