Drengirnir voru vaktir klukkan 8:30 í morgun með ljúfum tónum og hófst morgunmatur stundvíslega klukkan 9:00. Eftir morgunmat var morgunstund og svo biblíulestur.

Í dag verður boðið upp á báta, smíðaverkstæði, langstökk, 60m hlaup, fótbolta og margt fleira. Íþróttahúsið er einnig alltaf opið en þar er stór íþróttasalur sem drengirnir eru ýmist í körfubolta eða skotbolta. Einnig í íþróttahúsinu er borðtennis, billjard, þythokký og fótboltaspil. Listakeppnin er farin af stað og stendur hún yfir allan flokkinn. Drengirnir geta skilað inn listaverkum, ljóðum eða sögum og á veislukvöldvökunni verður einn útnefndur listamaður flokksins.

Veðrið hefur ekki verið neitt sérstakt í flokknum, rigning allan tímann nánast. Veðrið hefur þó ekki stoppað drengina frá því að vera úti í dagskránni og það er frábært.

Við munum bjóða upp á vatnafjör, heita potta og hoppukastala í dag til auka dagskrá úrvalið.

Á kvöldin eru kvöldvökur en á þeim syngjum við, förum í leiki, sjáum leikrit, heyrum framhaldssögu og hugleiðingu. Það er alltaf mikið fjör á kvöldvökum.

Matseðill

Morgunmatur: Rjómalagað kakó og nýbakað brauð með allskonar áleggi

Hádegismatur: Nautahakkbollur með ítalskri sósu og spaghetti.

Kaffitími: Bananabrauð, kaka og karmellulengjur.

Kvöldmatur: Grillaðar pylsur.

Kvöldhressing: Kex og Ávextir.

Nýjar myndir komnar inn!

Hreinn Pálsson – forstöðumaður

Vatnaskógur