Þá er aðventuflokkur farinn af stað. Í gær komu um 20 hressir strákar hingað í Vatnaskóg, tilbúnir í slaginn. Þeir eiga flestir það sameiginlegt að hafa komið áður í Vatnaskóg sem þýðir að það er mikil reynsla í hópnum, það er gott. Þessa helgi ætlum við að bjóða upp á fjölbreytta dagskrá eins og t.d. borðtennismót, billjardmót, knattspyrnu, brjóstsykursgerð, ævintýraleiki í náttúrunni, gönguferðir, varðeld og margt fleira. Stórleikur Englands og Frakklands verður sýndur á stóra skjánum á laugardagskvöld!

Í Vatnaskógi er mjög kalt, enginn snjór og lítill sem enginn vindur. Sólin hefur heiðrað Kambinn vel hinum megin við Eyrarvatn og hefur verið fallegt að sjá, eins og myndirnar sýna.


Starfsfólk

Þessi helgi er mönnuð af ungum foringjum sem og gömlum kempum sem flestir drengirnir kannast vel við.

Foringjar sem annast dagskrá og umönnun drengjanna eru þeir:

Hreinn Pálsson – Frost-foringi
Greipur Gíslason – Hallar-foringi
Jónas Breki Kristinsson – HM-foringi
Sigríður Sól Ársælsdóttir – Jóla-foringi

Þeim til halds og trausts er forstöðumaðurinn Gunnar Hrafn Sveinsson.

Eldhúsi og þrifum í Vatnaskógi stýrir ráðskonan Valborg Rut Geirsdóttir. Henni til aðstoðar er Sverrir Hákon Marteinsson.
Þá eru þeir Ársæll Aðalbergsson og Þórir Sigurðsson í flokknum en þeir koma að ýmsu daglegu viðhaldi á tækjum og húsnæði.

Matseðill

Kvöldmatur: Lasagne
Kvöldkaffi: Jógúrtkaka, appelsínur, epli og lakkrístoppar

Morgunmatur: Morgunkorn, súrmjólk, nýbakað brauð og rjúkandi heitt súkkulaði
Hádegismatur: Vatnaskógarflatbökur
Kaffitími: Súkkulaðikaka, sætabrauð og súkkulaðibitakökur
Kvöldmatur: Snitzel, kartöflur, brún sósa, gular, grænar og rauðkál
Skógarvarðeldur: Sykurpúðar
Kvöldkaffi: Popp (yfir bíómynd) og ávextir

Morgunmatur: Morgunkorn, súrmjólk, nýbakað brauð og rjúkandi heitt súkkulaði
Hádegismatur: Grjónagrautur

Brottför úr Vatnaskógi verður rétt fyrir kl. 13 á sunnudag og við ættum því að renna í hlað á Holtavegi 28 kl. 14:00.

Myndir koma inn á linkinn hér að neðan.

Þökkum traustið!
Gunnar Hrafn – forstöðumaður

Aðventuflokkur 2022