Þá er sumarstarfið í Vatnaskógi formlega hafið, það voru hressir strákar sem mættu á svæðið í gær. Eins og undanfarin ár hefjum við leik á Gauraflokknum, sumarbúðum fyrir drengi með ADHD og skyldar raskanir.

Það rigndi hressilega á okkur frá því við mættum á svæðið og fram eftir degi í gær. Þrátt fyrir þetta var ágætis bátaveður og voru margir sem nýttu sér það og skelltu sér á báta, þá voru hjólabátarnir sérstaklega vinsælir. Aðrir ákváðu að skella sér til sunds, enda frekar hlýtt úti þrátt fyrir regnið. Síðan var gott að hita sig upp í pottinum í fjöruborðinu eftir svamlið. 

Við opnuðum einnig smíðaverkstæðið sem er ávallt vinsælt og erum við strax farin að sjá flott verk skapast. Íþróttahúsið var einnig vinsælt að vanda en þar er hægt að fara í borðtennis, þythokkí, boltaleiki eða jafnvel grípa sér bók eða spila. Þá voru heitu pottarnir við íþróttahúsið vel nýttir.

Það getur verið krefjandi fyrir marga að koma á nýjan stað og hitta nýtt fólk. Því voru flestir orðnir vel þreyttir eftir kvöldvökuna í gær og sofnuðu fljótt og vel. Framundan er annar flottur dagur í skóginum og verður boðið upp á skemmtilega dagskrá í dag. 

 

Bestu kveðjur úr Lindarrjóðri

Ásgeir Pétursson, forstöðumaður