Góðan og blessaðan daginn úr Vatnaskógi. Það er fallegur laugardagur sem tekur á móti okkur í dag, spáin er ágæt og góður dagur framundan.

Í svona flokkum getur tekið tíma fyrir drengina að átta sig á rammanum og reglunum hjá okkur en það var komið hjá flestum seinni partinn í gær og komið ágætis jafnvægi á hópinn. 

Meðal dagskrárliða í gær voru skákmót í íþróttahúsi, körfubolti, bátar og margt fleira. Þá var boðið upp á ferðir fyrir drengina á mótorbátnum sem margir voru mjög spenntir fyrir auk þess að listasmiðjan og smíðaverkstæðið stóðu fyrir sínu að vanda.

Fyrir kvöldið fékk áhugasamur hópur að semja og æfa upp leikrit sem var síðan flutt á kvöldvökunni fyrir fullu húsi og fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna eftir flutninginn á verkinu og mátti eflaust heyra lófatakið í nærsveitum Vatnaskógar. Það er mál manna að um leiksigur hafi verið að ræða hjá nokkrum af drengjunum. Það gefast eflaust fleiri tækifæri til stíga á svið í flokknum, enda margir hæfileikaríkir drengir á þessu sviði á staðnum.

Í kvöld verður einnig hæfileikasýning og margir hafa lýst yfir áhuga á henni. Það verður gaman að sjá hvernig hún fer í kvöld!

 

Bestu kveðjur

Ásgeir Pétursson, forstöðumaður