Þá er komið að síðasta heila deginum hjá okkur í Vatnaskógi, en hann er jafnan kallaður veisludagur. Á þessum degi gerum við okkur sérstaklega glaðan dag og bjóðum upp á skemmtidagskrá sem ekki hefur sést áður í flokknum. Við ætlum að hafa keppni í Vatnaskógarvíkingnum en þá er keppt í hinum ýmsu aflraunum þar sem reynir bæði á styrk og snerpu. Einnig verða hoppukastalarnir teknir fram í íþróttahúsinu.

 

Í kvöld verður síðan veisla í matsalnum með tilheyrandi veislumat áður en haldið er á kvöldvöku. Á kvöldvökunni verða veitt verðlaun fyrir hinar ýmsu keppnir og afrek í flokknum, það verða leikrit og mikið fjör. Nú eru menn að leggja lokahönd á þau lista- og smíðaverk sem unnið hefur verið að síðustu daga og verður spennandi að sjá útkomuna.

 

Í gær voru drengirnir meðal annars dregnir á tuðru á vatninu og voru margir sem stukku einnig af bryggjunni í vatnið. Hæfileikasýningin sló öll met hvað varðar skemmtanagildi og greinilega miklir sviðslistamenn í þessum flokki. Það voru söng- og leikatriði, töfrabrögð, gítarspil ásamt mörgu öðru. Það var síðan sérstaklega skemmtileg og ekki síður fyrir starfsfólk þegar skógarmet féll á kvöldvökunni, að það var algjör þögn í salnum í 4 mínútur og 50 sekúndur í Gauraflokki, þetta er besti tíminn hingað til. Þetta átti sér stað þegar einn drengjanna leysti svokallaðan Rubik’s cube á meðan áhorfendur fylgdust stjarfir með.

 

Það koma vonandi flestir ánægðir heim eftir þessa daga í skóginu. Starfsfólk Gauraflokks 2023 þakkar kærlega fyrir sig.

 

Við minnum á rútan kemur um kl. 14 á Holtaveg 28 á morgun, mánudag.

 

Bestu kveðjur

Ásgeir Pétursson, forstöðumaður