Hingað í Vatnaskóg komu um 100 hressir strákar í hádeginu í gær. Tekið var á móti þeim í matsalnum og þar skiptast þeir á 7 borð, á hverju borði er borðforingi sem heldur utan um sína drengi meðan á dvölinni stendur. Borðið myndar svo saman lið sem keppir í knattspyrnu og ýmsum öðrum íþróttum sem er í boði. Þegar drengirnir koma á staðinn gætum við þess sérstaklega að vinir séu saman á borði.

Þegar búið var að fara yfir mikilvæg atriði í upphafi dvalar fóru drengirnir í Birkiskála og komu sér fyrir. Herbergin í Vatnaskógi eru 4-6 manna og hvert borð deilist í herbergi, þar gætum við þess að vinir séu saman á borði.

Eftir hádegismat tók svo við dagskrá með útileikjum, bátarnir voru opnir, í íþróttahúsinu var keppt í þythokký og fyrstu knattspyrnuleikirnir fóru fram.

Þannig hélt dagskráin áfram eftir því sem leið á daginn. Kl. 15 er kaffitími þar sem boðið er upp á heimabakað bakkelsi og svo er kvöldmatur kl. 18. Á milli matartíma er svo dagskrá, en yfirleitt eru 4-5 viðburðir í boði og drengir geta sjálfir valið hvað þeir gera og geta svo einnig farið á milli dagskrárviðburða.

Kvöldkaffi er svo kl. 20.30 og að því loknu er kvöldvaka. Þá var komið að háttatíma og voru flestir drengirnir sofnaðir um kl. 23.

Þessi fyrsti dagur gekk ljómandi vel, þetta skemmtilegur hópur drengja, það er mikil spenna að koma á nýjan stað og kynnast honum, yfirleitt tekur aðeins lengri tíma að sofna fyrsta kvöldið.

 

Í morgun var svo vakið kl. 8.30. Hér er frábært veður, léttskýjað og nánast blankalogn, framundan er skemmtilegur dagur þar sem aðaláherslan verður á að nota góða veðrið til að leika í vatninu.

 

Myndir frá þessum fyrstu tveimur dögum koma inn seinna í dag.

 

Á morgun 15. júní koma til okkar gestir frá RÚV sem eru að undirbúa dagskrá um 100 ára afmæli Vatnaskógar. Þeir munu stoppa hjá okkur og taka upp einhver myndskeið sem gætu verið notuð við dagskrárgerðina, drengjunum mun án efa eitthvað bregða fyrir og þeir voru spenntir yfir þessari heimsókn. Ég bið foreldra um að láta mig vita ef ykkar drengur má ekki birtast í sjónvarpinu.

 

Þráinn Haraldsson, forstöðumaður