Þá er upp runninn veisludagur í 3. flokki Vatnaskógar í sumar! Norðaustan áttin blés áfram lengur í gær en við höfðum vonast eftir, en nú hefur henni lægt svo að bátarnir munu opna nú aftur á fyrir hádegi í dag. Þegar bátaforingjarnir prufuðu vatnið fyrir mótorbátsferðir í gær, þá reyndist vindurinn enn vera of mikill til að geta boðið strákunum í mótorbátsferðir en þess í stað verða þessar ferðir í boði í dag. Í gær náðum við þó að bjóða þeim sem vildu að fara aðeins út í vatnið hjá ströndinni og var því mikið vatnafjör. Síðan fóru þeir annað hvort beint í heita pottinn eða heita sturtu. Um kvöldið var líka farið í „klemmuleik“ þar sem að var mikið fjör og endaði á því að elta nokkur skógarskrýmsli til að ná af þeim höfuðfatinu.

Helstu dagskrárliðir fyrir hádegi í dag eru brekkuhlaupið, úrslitaleikur Kristalsbikarsins, íþróttahúsið opið með öllu sem er þar, mótorbátsferðir, kassabílarnir og kózý í Birkiskála. Eftir hádegi verður síðan hinn æsispennandi foringjaleikur þar sem úrvalslið drengja etur kappi við foringjalið í knattspyrnu. Samhliða því verður íþróttahúsið og smíðaverkstæðið líka opið og skellt verður í bíóstemmningu í Birkiskála. Mótorbátsferðir og fleira skemmtilegt heldur síðan áfram eftir kaffitímann áður en við höldum til veislukvöldverðar. Veislukvöldmatnum er síðan fylgt eftir með veislukvöldvöku þar sem að við verðum með bikaraafhendingu, úrslitin í Biblíuspurningakeppninni, skemmtileg leikrit, lokaþáttinn í framhaldssögu flokksins og sjónvarp Lindarjóður, að auki við skemmtilegan söng og skonrokkið verður á sínum stað. Minnum síðan á að myndir úr flokknum má finna hér.

Með kærri kveðju úr Vatnaskógi,

Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, forstöðumaður

 

Matseðill dagsins

Morgunmatur: morgunkorn og kakó

Hádegismatur: plokkfiskur, rúgbrauð og salat

Kaffi: Döðlubrauð og kanilkaka

Kvöldmatur: Snitzel

Kvöldkaffi: ávextir og kex