Kæri lesandi.
Eitt og annað hefur átt sér stað hjá okkur í ævintýraflokki síðustu sólarhringa. Hér kemur ,,stutt“ innlegg.

Eftir kvöldkaffi á laugardaginn varð uppi fótur og fit í matsalnum þar sem foringjar drengjanna fóru að metast um hvaða borð væri best og gæti sigrað öll hin í hvaða keppni sem er. Foringjar flugu í loftinu og myndarammi brotnaði, segja má að menn hafi látið kappið bera fegurðina ofurliði. Deilurnar færðust yfir í íþróttahúsið þar sem borðin kepptu sín á milli í Dodgeball til að skera úr um ágreininginn og fór svo að lokum að borð 7 stóð uppi sem sigurvegari, með foringjann og forstöðumanninn Hrein Pálsson sem fyrirliða.

Drengirnir voru vaktir á sunnudagsmorgunn kl. 09:00. Í morgunmat var boðið upp á eðalmorgunkorn ásamt mjólkurvörum, rúsínum og púðursykri. Síðan var haldið í fánahyllingu, morgunstund, biblíulestur og loks hófst frjáls tími. Svínadalsdeildin hélt áfram, fjölbreyttar keppnir bæði í frjálsum og í íþróttahúsinu sjálfu, ásamt hjólabílum og smíðaverkstæði. Bátarnir eru vinsælir og hér á staðnum eru þolinmæðir og stórhuga veiðimenn sem láta ekki úrhellisrigningu stöðva sig frá því að sitja á bát tímunum saman.

Í hádegismat var boðið upp á lasagne með góðu meðlæti og gulrótaköku í síðdegishressingu. Í kvöldmat var hin eina sanna ávaxtasúrmjólk borin fram á borð, sérréttur okkar hér í Vatnaskógi, sem gladdi mörg andlit.

Á miðri kvöldvöku ruddust ókunnugir menn málaðir í framan og tóku yfir Vatnaskóg. Þeir höfðu rænt öllum borðforingjum drengjanna sem nú þyrftu að leysa ýmsar þrautir til að bjarga þeim. Á meðan tæplega 100 drengir hlupu um víðan völl í grenjandi rigningu, hlupu þessir ókunnugu og ógnvænlegu yfirtökumenn drengina uppi og færðu þá í fangelsi þar sem hinum handteknu var boðið upp á popp, ekki svo slæm, sú vist. Sem betur fer komust nokkrir drengir óséðir fram hjá og tókst að hlaupa á lokastöðina þar sem þeir fundu foringjana bundna við járnhliðið þar sem landsvæði Vatnaskógar hefst. Allt fór þetta nú vel að lokum og í raun var ekki um neina raunverulega yfirtöku að ræða en þessir menn reyndust nú bara vera ,,gamlir“ foringjar sem komu til að stýra ævintýraleik.

Í morgun (mánudag) voru drengirnir aftur vaktir kl. 09:00 en nú var nýbakað brauð og heitt súkkulaði sem beið þeirra við komuna í matsalinn. Á dagskrá dagsins er áframhald af Svínadalsdeild og frjálsum íþróttum, en í dag munu drengirnir hlaupa Víðavangshlaupið fræga í kringum Eyrarvatn. Við höfum fengið til okkar Bubblebolta sem drengjunum stendur til boða að prófa, sem og að busla vel og lengi í Vatnafjöri þar sem tuðra og mótorbátur koma við sögu. Í kvöld er svo fyrirhuguð hæfileikasýning, sjáum hvort næsta stórstjarna fæðist þar. Semsagt nóg um að vera hér í Skóginum!

Myndir bætast hér inn á Flickr reglulega

Vatnaskógur

Minnum á símatíma forstöðumanns á milli 11:00 og 12:00 alla daga. Símanúmerið er: 433 8959

Með virðingu og þökk,
Gunnar Hrafn Sveinsson, forstöðumaður