Þá er flokkurinn senn á enda og mikið hefur hann liðið hratt. Þetta er hreint ótrúlegt, en það hlýtur að þýða að við höfum haft nóg að gera!

Stiklað á stóru

Hér hafa sannarlega verið viðburðaríkir dagar í Vatnaskógi. Norðaustan áttin lék okkur grimmt fyrstu tvo dagana. Heiðarlegar tilraunir voru gerðar af hugdjörfum einstaklingum að róa öldurnar, það var sjón að sjá. Á degi þrjú var skrúfað fyrir vindinn og eftir það fundum við sannan júlí hita. Að öðru leiti hefur verið ljómandi gott veður hjá okkur og sólin var gott mótvægi við vindinn.

,,Vatnaskógur Olympics” leikarnir voru haldnir yfir flokkinn. Við skiptum unglingunum í 7 hópa, sem voru sömuleiðis Biblíuleshópar þeirra yfir vikuna. Keppt var í greinum á borð við reipitog, blindrabolta, uppflettikeppni og dodgeball. Mikil spenna var yfir leikunum og ljóst að liðin ætluðu sér öll að lyfta bikarnum. Þá voru ýmsir aðrir dagskrárliðir í boði í vikunni, líkt og bátar, vatnafjör,  og frjálsar íþróttir. Formúlu 1 kappakstur, útileikir, smíðar, ýmsar keppnir í íþróttahúsinu, spil og spjall, sketsagerð og fleira.

Haldið var í nokkrar ævintýraferðir í flokknum. Kamburinn, fjallið á móti Vatnaskógi, var sigrað af nokkrum fjallageitum. Farið var með allan hópinn að kvöldi til í Hreppslaug þar sem við höfðum staðinn útaf fyrir okkur, spiluðum tónlist, sprikluðum í lauginni og slökuðum á í pottunum. Grillaðar pylsur tóku svo á móti okkur við heimkomu í Vatnaskóg upp úr miðnætti, kærkomið nætursnarl fyrir svefninn. Loks fóru 20 krakkar í útilegu í skóginum og gistu um nóttina. Við hin fengum að njóta góðs af þeirri ferð og tókum þátt í varðeld, sykurpúðum, grilluðu brauði og héldum litla útgáfu af brekkusöng. Síðan héldum til rekkju á mjúkar dýnur, fjarri flugum og öðrum skordýrum.

Á veisludagsmorgni voru unglingarnir vaktir með ljúfum tónum jólalaga og í hádegismat var (möndlu)grjónagrautur sem innihélt að vísu harða pastaskrúfu. Jólin komu nefnilega snemma í ár hér í Vatnaskógi en steypubílar mættu í morgunsárið og byrjuðu að steypa nýjan Matskála. Mikið gleðiefni og góð byrjun á veisludegi, merkileg tímamót sem unglingarnir fengu að vera hluti af. Eftir kaffi var haldið fast í hefðir er hið geysisterka og öfluga Foringjalið mætti meðalsterku Stjörnu- og Draumaliði unglinga í knattleik. Foringjaliðið fékk góðan liðsstyrk frá landsliðskonunni Ingibjörgu Sigurðardóttur, sem leikið hefur fleiri en 50 leiki fyrir kvennalandsliðið í knattspyrnu. Það er ekki að spyrja að leikslokum, 8-3 fyrir börnunum….

Í kvöldmat gæddum við okkur á ljúffengu íslensku heiðalambi, með öllu tilheyrandi. Veislukvöldvaka var haldin í kjölfarið með verðlaunaafhendingu, söng, hlátri, leikritum, Sjónvarp Lindarrjóðri og fleiri skemmtilegum uppákomum. Því fylgdi svo glæsilegasta ball sem sögur fara af, Svínadalsballið. Við þorum næstum því að fullyrða að enginn á Íslandi hefur farið á svo skemmtilegt ball á mánudegi. Fram komu VÆB, Mango on the beat, DJ Ljómi, DJ Gugga og sjálf Eurovision stjarnan okkar, Diljá Pétursdóttir.

Heimför

Brottför frá Vatnaskógi kl. 14:00, þriðjudaginn 1. ágúst. Heimkoma áætluð kl. 15:00 á Holtaveg 28.

Þið sem hyggist sækja börn ykkar eru vinsamlegast beðin um að gera það fyrir kl. 13:45.

Þið sem hyggist sækja og hafið ekki látið vita við skráningu, eruð beðin um að hringja í síðasta lagi fyrir kl. 13:00 og láta vita, svo töskurnar fari ekki í rúturnar.

Að lokum

Það eru þreyttir, en vonandi sáttir unglingar sem koma í fang ykkar við heimkomu. Við erum að minnsta kosti mjög ánægð með flokkinn og unglingana, framtíðin er sannarlega björt og þeim eru allir vegir færir, það er nokkuð ljóst. Við sem störfum í Vatnaskógi erum þakklát fyrir það traust sem foreldrar sýna okkur með því að senda börn sín í sumarbúðir og tökum það traust alvarlega. Það er og metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi í tengslum við Unglingaflokk getur þú sent tölvupóst á arsaell@kfum.is eða haft samband við skrifstofu KFUM og KFUK í Reykjavík, sími 588 8899.

Minnum á myndir á síðunni okkar

Með þökk fyrir traustið.
Fyrir hönd starfsfólks Unglingaflokks,
Þórdís Hafþórsdóttir og Gunnar Hrafn Sveinsson, forstöðufólk.