Þá er Gauraflokkur hafinn í Vatnaskógi, það voru hressir kappar sem biðu með eftirvæntingu eftir að komast í skóginn. Þegar við komum á staðinn var smá rok en það spáir ágætu veðri næstu dagana.

Þegar strákarnir höfðu komið sér fyrir var boðið upp á hádegismat, steiktan fisk að hætti Vatnaskógar. Strax eftir hádegi fór allur hópurinn saman í skoðunarferð um svæðið enda mörg hús og staðir sem gott er að kynna sér. Síðan voru íþóttahúsið og bátarnir vinsælir hjá mörgum, ásamt því að smíðaverkstæðið var formlega opnað.

Þetta er glæslegur hópur og endaði dagurinn í gær á stórkostlegri kvöldvöku þar sem stemningin var svakaleg. Það var flutt leikrit og framhaldssaga ásamt því að drengirnir fengu að heyra stutta hugvekju. Einnig var sungið svo kröftuglega að söngurinn ómaði um allar sveitir.

Það verður nóg að gera hjá okkur í dag og er stefnt að því að hafa meðal annars fjarsjóðsleit, leiklistarbúðir og listaverkakeppni.