Það rættist heldur betur úr veðrinu hjá okkur í gær og var gaman fyrir marga að skella sér á bát og leika sér í fjörunni. Þá hófst listaverkakeppni í listasmiðjunni þar sem allir þátttakendur fengu frjálsar hendur í túlkun og sköpun á sama þemanu.

Það var fljótlega ljóst að miklir hæfileikar leyndust í hópnum og eftir fyrstu kvöldvökuna voru margir sem vildu leika í leikriti eftir að hafa séð starfsmenn flytja stórbrotið verk. Því var brugðið á það ráð að hafa einskonar leiklistarsmiðju og voru nokkrir sem mættu og æfðu leikrit sem var frumsýnt undir dynjandi lófataki. Þess má geta að verkið var byggt á sígildu grínatriði úr smiðju Tvíhöfða.

Í morgun var boðið upp á mikla veislu í morgunmatnum. Á boðstólnum var nýbakað brauð ásamt beikoni, pulsum og heitu kakói.

Í dag ætlum við að opna pottana við íþróttahúsið og verður dagskráin stútfull að vanda. Þá mun skákmótið hefjast ásamt mörgu öðru.