Fyrsti dagurinn í Vatnaskógi er alltaf einstakur í 2. flokki, en þá stíga margir drengir sín fyrstu spor í sumarbúðum. Í flokkunum eru rúmlega 100 drengir og hafa nokkrir í hópnum komið áður í flokk í Vatnaskógi eða annað starf. Rúturnar renndu í hlað rétt rúmlega kl. 11 og stigu spenntir strákar úr rútunum og þutu í átt að matskálanum þar sem þeir völdu sér borð. Drengirnir sitja við sjö langborð ásamt borðforingja sínum – hvert borð myndar hóp sem tekur sameiginlega þátt í hinum ýmsu borðakeppnum t.d. fótboltamótunum, frjálsíþróttamótinu og hegðunarkeppninni. Já í Vatnaskógi er svo sannarlega keppt í flestu meira að segja hegðun og fær það borð sem stendur sig best í hegðun bikar á veislukvöldvöku n.k. sunnudag. Eftir að allir voru komnir á borð og að sjálfsögðu var passað upp á að vinir væru saman á borðum komu drengirnir sér fyrir í herbergjum sínum. Síðan var snæddur hádegismatur ljúfengt lasagne, hvítlauksbrauð og salat. Um kaffileytið voru skúffukaka og ávextir í boði og sunginn var afmælissöngur fyrir afmælisdreng dagsins. Í kvöldmat var boðið upp á skyr að hætti hússins og smurt brauð, áður en drengirnir fóru í háttinn var kvöldhressing, ávextir og kex.

Dagská dagsins var fjölbreytt að venju en allir tóku þátt í 100 manna hunguleikum eftir hádegismat. Leikurinn stóð í tæpan klukkutíma, en þá hófst önnur dagskrá og gátu drengirnir valið um báta, smíðaverkstæði, borðtennis, fótboltaspil, þykthokkí, skógarferð svo fátt eitt sé nefnt. Það var aðeins eitt sem ekki var boðið upp á og það er að hanga inn á herbergjum.

Á kvöldvöku var sungið, farið í nokkra leiki, drengjunum var sögð framhaldssaga og kristileg hugvekja. Eftir kvöldvökuna var þeim sem vildu boðið að fara á kapellustund og þáðu það þo nokkrir. Drengjunum gekk vel að sofna miðað við aðstæður og ófáir minntust á móður sína eða föður. Heilt yfir gekk flestum vel að sofna og var komin svefnró í skálanum kl. 23.00. Í morgun var varkið kl.  kl. 8.30 og morgunverður kl. 9. Það er gott veður á staðnum – stillt, skýjað og hlýtt

Símatími forstöðumanns er á milli kl. 11 og 12, þá verður undirritaður á vaktinni. Símanúmerið er: 433 8959.

Myndir úr flokknum munu birtast hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72177720317897366/

Nokkur orð um heimþrá

Í rúmlega 100 drengja hópi er ekki ólíklegt að einhverjir finni fyrir heimþrá fyrsta sólarhringinn eða svo. Því þykir mér mikilvægt að útskýra fyrir þeim foreldrum sem áhuga hafa hvaða hugmyndafræði og nálgun við aðhyllumst í þessum flokki í Vatnaskógi í tengslum við heimþrá. Því er hér smá innlegg.

Þrátt fyrir að heimþrá hafi ekki mikil áhrif nema á mjög lítinn hluta þeirra sem hér dvelja hverju sinni er heimþrá mikilvæg tilfinning og getur snert okkur öll. Heimþrá snýst um missi og er þannig nátengd sorg. Viðbrögð drengjanna eru þannig oft eins og skyndikúrs í sorgarviðbrögðum. Þegar heimþrá nær tökum á drengjunum, geta þeir komið með ásakanir, lokað sig af, reiðst og/eða notað samningatækni til að takast á við vanlíðan/sorgina. Stundum fylgir líkamleg vanlíðan, oftast nær í tengslum við magann (eða meltingarkerfið) en getur einnig komið fram sem hausverkur eða stirðleiki í liðum.

Fullorðnir einstaklingar þekkja væntanlega flest þessi einkenni, enda fullkomlega eðlileg viðbrögð við áfalli og breyttum aðstæðum. Fyrir marga drengina í sumarbúðum eru þessar sveiflukenndu og sterku tilfinningar hins vegar nýjar og jafnvel áður óþekktar og þeir hafa ekki hugmynd um hvernig hægt er að takast á við þær.

Í Vatnaskógi leggjum við áherslu á að takast á við þessar tilfinningar í samráði við foreldra og höfum samband strax og við teljum að tilfinningarnar hefti tækifæri drengjanna til að njóta dvalarinnar. Það að við höfum samband merkir samt alls ekki að við teljum að viðkomandi drengur þurfi að fara heim, heldur miklu fremur viljum við að þekking foreldra á barninu nýtist til að hjálpa okkur að finna leiðir til að leyfa barninu að njóta sín. Samskipti og samstarf milli allra aðila, barns, foreldra og starfsmanna er lykill að þessu.

Aðferðafræðin í heimþrármálum hérna í Vatnaskógi þessa vikuna er sú að hjálpa barninu að brjótast út úr sorgarferlinu, sættast við umhverfi sitt og sjá tækifærin í dvölinni. Þannig viðurkennum við og skiljum tilfinningarnar en reynum að beina athygli þeirra frá vanlíðaninni að tækifærunum.

Við trúum því að þessi reynsla drengjanna og það að láta ekki stjórnast af vanlíðan, þó hún sé viðurkennd, sé mikilvæg fyrir drengina og hjálpi þeim til að þroska tilfinningar sínar og andlegt atgervi. Við skiljum þó líka að það getur gerst að aðstæður, upplifun og tilfinningar drengjanna séu þess eðlis að þeir eru einfaldlega ekki tilbúnir til að takast á við dvölina og þurfa að vera skemur en áætlað var í upphafi. Það gerist þó mjög sjaldan.

Starfsfólk

Foringjar sem annast dagskrá og umönnun drengjanna eru þeir:

Benedikt Þórisson, 1. borð – Alhliðaforingi

Tristan Enok, 2. borð – Bátaforingi

Fannar Smári Jóhannesson, 3. borð – Útileikjaforingi

Jón Baldvin Magnússon, 4. borð – Alhliðaforingi

Tómas Ingi Halldórsson, 5. borð – Frjálsíþróttaforingi

Matthías Guðmundsson,6. borð – Knattspyrnforingi

Haukur Guðnason, 7. borð – Bátaforingi

Borðlausir eru:

Gunnar Þór Snæberg Valdimarsson, Innileikjaforingi

Gunnar Sandholt – Alhliðaforingi

Þeim til halds og trausts eru fostöðumennirnir Jón Ómar Gunnarsson og Þráinn Haraldsson.

Eldhúsi og þrifum á staðnum stýrir matráðurinn Sverrir Hákon Marteinsson. Í eldhúsinu starfa einnig Bríet Saga Kjartansdóttir, Thelma Rut Þorvaldsdóttir, Brynjar Már Guðmundsson

Þess utan eru ungir aðstoðarforingjar á svæðinu, framtíðarleiðtogar í starfi KFUM og KFUK. Þeir ganga í allskonar verkefni á svæðinu, hvort sem það er aðstoð í gönguferðum, uppvask, smíðar, frágangur og tiltekt á svæðinu eða skipulag leikja undir umsjón foringja. Aðstoðarforingjar þessa vikuna eru þeir Arnór Emil, Ari, Bjarki Þór, Bjartur, Högni, Sigursveinn og Sigurvin Elí.