Í dag er heimferðardagur, en því miður tókst ekki að setja frétt á vefinn í gær enda annasamur veisludagur í Vatnaskógi – beðist er velvirðingar á því. En skemmst er frá því að segja að veisludagurinn gekk stórvel. Um morgunin var Skógarmannamessa í Gamla skála, sem sr. Þráinn Haraldsson, sóknarprestur í Akraneskirkju, sá um. Eftir messuna var boðið upp á mikla dagskrá og m.a. var þeim sem vildu boðið að taka þátt í brekkuhlaupi, en þá er hlaupið upp að hliði c.a. 1,6 km og tilbaka – löng hefð er fyrir því að hlaupa brekkuhlaup á veisludegi – 20 drengir tóku þátt í ár með ágætum árangri. Hinn víðfrægi foringjaleikur fór fram í gær, en þá etja kappi úrvals-og draumalið drengjanna við lið foringjanna. Drengirnir börðust hetjulega og sýndi snilldartakta á knattspyrnuvellinum og bættu það upp sem þá skorti í hæð og þyngd með feiknarhraða sem foringjar áttu oft erfitt með að höndla. Leiknum lauk með 7 – 5 sigri foringjanna að leik loknum fór fram leikur drauma – og úrvalsliðs flokksins. Í kvöldmat var boðið upp á ljúffengt snitsel að hætti matráðsins og gos – sem vakti mikla lukku hjá strákunum. Því næst var veislukvöldvaka þar sem sýndur var myndbandsannáll flokksins, bikarar afhentir, úrslilt biblíuspurningarkeppninnar fór fram og að lokum var drengjunum gefið Nýja Testamentið að gjöf. Það tók drengina heldur lengur að sofna en fyrri kvöld og var komin ró undir miðnætti – mér segir hugur að drengirnir sofni snemma í kvöld.

Þegar þetta er skirfað eru drengirnir sumir hverjir að stíga sín fyrstu skref við það að pakka í eigin ferðatösku og safna saman fötunum sínum – það er talsvert magn af óskilamunum sem verða auglýstir á eftir á lokastundinni. Hægt verður að vitja óskilamuna á Holtavegi 28 (þaðan sem rúturnar fóru). Brottför er kl. 14 og áætluð heimkoma kl. 15.

Flokkurinn hefur gengið mjög vel og drengirnir ykkar verið til fyrirmyndar – framtíðin er björt! Margir hafa tekist á við nýjar áskoranir, eignast nýja vini, öðlast hugrekki og aukna trúa á sjálfa sig. Við höfum reynt að kenna þeim eitt og annað um lífið og tilveruna og trúum því að það verði þeim að gagni.

Fyrir hönd starfsfólks Vatnaskógar þakka ég fyrir flokkinn!

Jón Ómar Gunnarsson, forstöðumaður.