Kæri lesandi.
Eitt og annað hefur átt sér stað hjá okkur í ævintýraflokki síðustu sólarhringa.

Eftir kvöldkaffi í gær varð uppi fótur og fit í matsalnum þar sem foringjar drengjanna fóru að metast um hvaða borð væri best og gæti sigrað öll hin í hvaða keppni sem er. Foringjar flugu í loftinu og myndarammi brotnaði, segja má að menn hafi látið kappið bera fegurðina ofurliði. Deilurnar færðust yfir í íþróttahúsið þar sem borðin kepptu sín á milli í Dodgeball til að skera úr um ágreininginn og fór svo að lokum að borð 4 stóð uppi sem sigurvegari, með foringjann og eyjamanninn Snorra Rúnarsson sem fyrirliða.

Drengirnir voru vaktir kl. 09:00 í morgun. Í morgunmat var boðið upp á eðalmorgunkorn og hafragraut ásamt mjólkurvörum, rúsínum og púðursykri. Síðan var haldið í fánahyllingu, morgunstund, biblíulestur og loks hófst frjáls tími. Svínadalsdeildin heldur áfram í dag, fjölbreyttar keppnir bæði í frjálsum og í íþróttahúsinu sjálfu, ásamt hjólabílum og smíðaverkstæði. Bátarnir eru vinsælir og hér á staðnum eru þolinmæðir og stórhuga veiðimenn sem láta ekki úrhellisrigningu stöðva sig frá því að sitja á bát tímunum saman.

Við höldum áfram með ævintýraflokkinn og erum með margt spennandi á teikniborðinu hvað dagskrá varðar, hlökkum til.

Matseðill

Morgunmatur: Morgunkorn, súrmjólk og hafragrautur

Hádegismatur: Gufusoðinn þorskur með epla og lauk-karrý ragú, ásamt kartöflum.

Kaffitími: Súkkulaðibitakökur og pizzasnúðar

Kvöldmatur: Pastaréttur með bacon og pylsum

Kvöldkaffi: Ávextir og kex

 

Með kærri kveðju úr Skóginum,

Hreinn Pálsson, forstöðumaður

Myndir bætast hér inn á Flickr reglulega

Vatnaskógur