Líf og fjör við Eyrarvatn

Það voru kátir og orkumiklir drengir sem mættu til okkar í Vatnaskóg í gær. 15° hiti og glampandi sól allan daginn.
Frábær byrjun þar sem bátar, sund í Eyrarvatni, tuðruspark, frjálsar íþróttir og ævintýri í skóginum fengu mesta athygli. Kvöldvakan gekk vel, margir voru að læra nýja söngva, á milli þess sem salurinn hló við skrítlur og látbragð leikfélags Villiandarinnar.
Það voru þreyttir sveinar sem lögðust á koddann sinn í gærkvöldi eftir skemmtilegan sumardag.

Dagurinn í dag

Dagskrá dagsins er stútfull að vanda. Svínadalsdeildin í tuðrusparki heldur áfram þar sem öll 8 borðin keppast um að vinna Deildarbikarinn veglega. Bátarnir verða opnir og hver veit nema það veiðist fiskur! 1300 m. hlaup, kúluvarp og spjótkast munu fara fram í frjálsum íþróttum. Minnstu munaði að Skógarmet hefði verið slegið í gær í 60 m., einungis um 2 millisekúndur stóðu í vegi fyrir því. Það gæti dregið til tíðinda í þessum efnum síðar í vikunni! Pool mót í íþróttahúsinu er í fullum gangi, stangartennismót á döfinni, ,,Last to leave the circle“ tímamótaþraut sem reynir á þol, útsjónarsemi og þrjósku, hópleikir, dodgeball um kvöldið og ýmislegt annað.

Matseðill dagsins

Morgunverður: Morgunkorn og mjólkurvörur
Hádegisverður: Grænmetisbuff og meðlæti
Síðdegishressing: Jógúrtkaka og kanillengjur
Kvöldverður: Ítalskar kjötbollur
Kvöldhressing: Kex og mjólk

Minnum á myndasíðuna okkar sem uppfærist yfir daginn
Myndir úr Vatnaskógi

Með kveðju,
Gunnar Hrafn, forstöðumaður.