Á bátunum piltarnir bruna

Í morgun vöknuðu drengirnir upp við ilm af heitu súkkulaði sem þeir nutu með bestu lyst yfir nýbökuðu brauði í morgunmat. Við í Vatnaskógi fögnum alltaf 3. degi hvers flokks sérstaklega og lítum á þann dag sem ákveðin tímamót, því að þeir sem eru að koma í fyrsta skipti í Vatnaskóg teljast nú til Skógarmanna, en til þess þarf maður að dvelja tvo sólarhringa í dvalarflokki í Vatnaskógi. Af því tilefni fræddum við strákana á morgunstund um 101 ára sögu Vatnaskógar og uppbyggingu staðarins sem vakti mikinn áhuga þeirra.

Dagskrá dagsins

Fjölmargar keppnir verða í dag hjá okkur. Fótboltaspilsmót, stinger, brandarakeppni, 400 m. spretthlaup, ásamt fleiri frjálsíþróttagreinum og róðrakeppni á Eyrarvatni, svo fátt eitt sé nefnt. Þá verður íþróttahúsið opið með öllum sínum leiktækjum, bátarnir, veiðar, knattspyrna og ævintýri í skóginum. Eftir hádegi fer allur hópurinn saman út í Oddakot, sem er við austurenda Vatnaskógar, þar sem við skiptum í tvö lið og spilum stóran hópleik. Það er því nóg fyrir stafni, tíminn líður hratt og dvölin nú hálfnuð.

Matseðill dagsins

Hádegisverður: Vellingur (Grjónagrautur)
Síðdegishressing: Sjónvarpskaka og tebollur
Kvöldverður: Ekta íslenskar og grillaðar SS pylsur
Kvöldhressing: Ávextir

Hér má sjá myndir:

Myndir úr Vatnaskógi

Með Skógarmannakveðju,
Gunnar Hrafn, forstöðumaður