Von er á 92 unglingum í sumarbúðirnar í Vatnaskógi fimmtudaginn 25. júlí og framundan er sex daga skemmtidagskrá með öllu tilheyrandi. Reynslan er mikil þegar litið er til hversu margir þátttakendur hafa áður tekið þátt í starfi KFUM og KFUK og við hlökkum mikið til að taka á móti gömlum andlitum og nýjum. Veðurspáin fyrir hvern flokk er alltaf jafn spennandi fyrir bæði starfsfólk og þátttakendur. Rætt var við Pál Ágúst Þórarinsson, veðurfræðing og doktorsnema í Danderyd í Svíþjóð. Hann boðar góða og slæma spá. Þurrt á fimmtudag og föstudag en byrjar svo hressilega að rigna seinnipart laugardags og helst þannig í tvo daga til viðbótar. Lítill vindur og tilefni til góðrar veiði á vatninu.

Dagskrá fyrsta dags

Eftir hádegi og út daginn verður pökkuð dagskrá. Má þar nefna hópleiki og ýmsa aðra útidagskrá, báta (ef veður leyfir) og smíðaverkstæðið, frjálsíþróttakeppnin, allt það sem íþróttahúsið hefur upp á að bjóða og margt fleira, að ógleymdri Svínadalsdeildinni, knattspyrnumótinu fræga. Síðar um kvöldið verður kvöldvaka með tilheyrandi söng, örsögu og hugleiðingu, ásamt leikriti frá okkar virta leikfélagi, Villiöndinni.

Starfsfólk

Foringjar sem annast dagskrá og umönnun þátttakenda eru:

Benedikt Guðmundsson, Fannar Logi Hannesson, Guðbjörg Ýr Hilmarsdóttir, Ísak Jón Einarsson, Lára Ruth Clausen, María Rut Arnarsdóttir, Sigmundur Freyr Hafþórsson og Sigríður Sól Ársælsdóttir.

Þeim til halds og trausts eru undirrituð, forstöðufólkið Þórdís Hafþórsdóttir og Gunnar Hrafn Sveinsson.

Eldhúsi og þrifum á staðnum stýrir matráður Hreiðar Örn Zoëga Stefánsson.

Innan hans sviðs starfa þau Guðmundur Tómas Magnússon, Gríma Katrín Ólafsdóttir, Jakob Freyr Einarsson og Karen Sól Halldórsdóttir. 

Þá eru Sigurður Jóhannesson, Snorri Rúnarsson og Þórir Sigurðsson í flokknum en þeir koma að ýmsu daglegu viðhaldi á tækjum og húsnæði, svo fátt eitt sé nefnt. Að ógleymdum okkar eina sanna Alberti Ebenezer Bergsteinssyni, sem sér um að slá grasið á rauðu þrumunni, þegar til þess viðrar. Þá eru nokkrir smiðir á svæðinu en þessa dagana er verið að reisa nýjan Matskála í Vatnaskógi, sem er mjög spennandi að fylgjast með.

Ef það eru einhverjar spurningar þá er símatími forstöðufólks á milli
11:00 og 12:00 alla daga. Símanúmerið er: 433 8959.

Matseðill fyrsta dags

Hádegisverður: Kjúklingaleggir, kartöflubátar og salat
Nónhressing: Nýbakað góðgæti úr bakaríinu
Kvöldverður: Íslenskt skyr eins og það gerist best og smurt brauð
Kvöldhressing: Kex og mjólk

Nokkur orð um heimþrá

Í rúmlega 90 manna hópi er ekki ólíklegt að einhver finni fyrir heimþrá fyrsta sólarhringinn eða svo. Því þykir okkur mikilvægt að útskýra fyrir þeim foreldrum sem áhuga hafa hvaða hugmyndafræði og nálgun við aðhyllumst í þessum flokki í Vatnaskógi í tengslum við heimþrá. Því er hér smá innlegg.

Þrátt fyrir að heimþrá hafi ekki mikil áhrif nema á mjög lítinn hluta þeirra sem hér dvelja hverju sinni er heimþrá mikilvæg tilfinning og getur snert okkur öll. Heimþrá snýst um missi og er þannig nátengd sorg. Viðbrögð barna eru þannig oft eins og skyndikúrs í sorgarviðbrögðum. Þegar heimþrá nær tökum á börnum, geta þau komið með ásakanir, lokað sig af, reiðst og/eða notað samningatækni til að takast á við vanlíðan/sorgina. Stundum fylgir líkamleg vanlíðan, oftast nær í tengslum við magann (eða meltingarkerfið) en getur einnig komið fram sem hausverkur eða stirðleiki í liðum.

Fullorðnir einstaklingar þekkja væntanlega flest þessi einkenni, enda fullkomlega eðlileg viðbrögð við áfalli og breyttum aðstæðum. Fyrir mörg börn í sumarbúðum eru þessar sveiflukenndu og sterku tilfinningar hins vegar nýjar og jafnvel áður óþekktar og þau hafa ekki hugmynd um hvernig hægt er að takast á við þær.

Í Vatnaskógi leggjum við áherslu á að takast á við þessar tilfinningar í samráði við foreldra og höfum samband strax og við teljum að tilfinningarnar hefti tækifæri barnanna til að njóta dvalarinnar. Það að við höfum samband merkir samt alls ekki að við teljum að viðkomandi barn þurfi að fara heim, heldur miklu fremur viljum við að þekking foreldra á barninu nýtist til að hjálpa okkur að finna leiðir til að leyfa barninu að njóta sín. Samskipti og samstarf milli allra aðila, barns, foreldra og starfsmanna er lykill að þessu.

Aðferðafræðin í heimþrármálum hérna í Vatnaskógi þessa vikuna er sú að hjálpa barninu að brjótast út úr sorgarferlinu, sættast við umhverfi sitt og sjá tækifærin í dvölinni. Þannig viðurkennum við og skiljum tilfinningarnar en reynum að beina athygli þeirra frá vanlíðaninni að tækifærunum.

Við trúum því að þessi reynsla barnanna og það að láta ekki stjórnast af vanlíðan, þó hún sé viðurkennd, sé mikilvæg fyrir þau og hjálpi þeim til að þroska tilfinningar sínar og andlegt atgervi. Við skiljum þó líka að það getur gerst að aðstæður, upplifun og tilfinningar barnanna séu þess eðlis að þau eru einfaldlega ekki tilbúin til að takast á við dvölina og þurfa að vera skemur en áætlað var í upphafi. Það gerist þó mjög sjaldan.

Farsímar

Rétt er að minna á reglur um farsímanotkun, sem sendar voru í tölvupósti um daginn:

Leyfðir ef farið er eftir reglum og eru á ábyrgð eiganda:

  1. Óleyfilegt er að taka myndir/myndbönd af öðrum án samþykkis.
  2. Óleyfilegt er að hringja heim úr eigin farsíma eða annarra. Öll símtöl heim þurfa að fara í gegnum forstöðufólk staðarins.
  3. Símar eru óleyfilegir í matartímum, fræðslustundum og á kvöldvökum.
  4. Þegar starfsfólk býður góða nótt í svæfingu þá er kominn tími að leggja frá sér símann og fara að sofa.
  5. Brot á reglum fela í sér að sími er tekinn af eiganda og geymdur örugglega hjá forstöðufólki.

Talandi um farsíma…

Þar sem margir þátttakendur verða eflaust með síma á sér og vita af þessari fréttasíðu þá munum við ekki birta fleiri fréttir hér fyrr en eftir veisludaginn til að taka saman flokkinn, svo við ljóstrum ekki upp einhverjum óvæntum atburðum sem eiga eftir að gerast. Engar áhyggjur samt, við hugsum vel um börnin ykkar og verðum dugleg að setja inn myndir. Þið fáið svo alla ferðasöguna frá einstöku sjónarhorni þann 30. júlí þegar rúturnar renna í hlað. Í millitíðinni skuluð þið njóta kyrrðarinnar, ef einhver er… 

Myndir úr flokknum munu birtast inn á þessa síðu: 

Virðingarfyllst,
Þórdís Hafþórsdóttir og Gunnar Hrafn Sveinsson, forstöðufólk