Ævintýralegir dagar

Það er sannarlega ótrúlegt að vera að rita hér síðari frétt Unglingaflokks, okkur finnst eins og hann hafi byrjað í gær…
Þetta hafa verið skemmtilegir dagar hjá okkur og þrátt fyrir smá vætu, skemmdi það ekki fyrir þeim fjölmörgu sem fóru út á bát og vildu vera úti í náttúrunni. Innipúkar áttu heldur ekki erfitt með að finna sér eitthvað að gera.

,,Vatnaskógur Olympics” leikarnir voru haldnir yfir flokkinn. Við skiptum unglingunum í 8 hópa, sem voru sömuleiðis Biblíuleshópar þeirra yfir vikuna. Keppt var í greinum á borð við reipitog, blöðrubrjálæði, boðhlaupi, Royal dragshow og dodgeball. Mikil spenna var yfir leikunum og ljóst að liðin ætluðu sér öll að lyfta bikarnum. Þá voru ýmsir aðrir dagskrárliðir í boði í vikunni, líkt og bátar, vatnafjör og frjálsar íþróttir. Hjólabílar, útileikir, smíðar, ýmsar keppnir í íþróttahúsinu, grillaðir sykurpúðar við varðeld í hjólbörum, lazertag, spil og spjall og fleira.

Haldið var í nokkrar ævintýraferðir í flokknum. Kamburinn, fjallið á móti Vatnaskógi, var sigrað af nokkrum fjallageitum. Farið var með hópinn að kvöldi til í Hreppslaug þar sem við höfðum staðinn útaf fyrir okkur, spiluðum tónlist, sprikluðum í lauginni og slökuðum á í pottunum. Grillaðar pylsur tóku svo á móti okkur við heimkomu í Vatnaskóg upp úr miðnætti, kærkomið nætursnarl fyrir svefninn. 

Veisludagar flokksins voru tveir að þessu sinni. Dagur 4. var Royal dagur þar sem konunglegi flotinn sigldi um Eyrarvatn og konunglegar keppnir voru haldnar, þ.m.t. Royal dragkeppnin, þar sem Margrét Þórhildur, Karl Gústaf og Elísabet II voru dómarar. Þá nutum við konunglegra veitinga yfir daginn, með Shepherd’s pie í hádeginu, tignarlegu teboði í kaffinu og lambalæri um kvöldið.

Á degi 5 var svo hinn hefðbundni veisludagur með öllu sínu hefðbundna veislu fyrirkomulagi. Eftir hádegi var haldið fast í hefðir er hið geysisterka og öfluga Foringjalið mætti meðalsterku Stjörnu- og Draumaliði unglinga í knattleik. Það er ekki að spyrja að leikslokum, 5-5 eftir venjulegan leiktíma, þar sem foringjunum tókst að jafna á lokamínútu eftir að hafa verið 4-1 undir í hálfleik. Endanleg úrslit réðust á vítapunktinum en við þurfum ekkert að ræða frekar þær niðurstöður. Í kvöldmat gæddum við okkur á dýrindis grilluðum hamborgurum. Veislukvöldvaka var haldin í kjölfarið með verðlaunaafhendingu, söng, hlátri, leikritum, Sjónvarp Lindarrjóðri og fleiri skemmtilegum uppákomum.

Heimför

Brottför frá Vatnaskógi kl. 14:00, þriðjudaginn 30. júlí. Heimkoma áætluð kl. 15:00 á Holtaveg 28.

Þið sem hyggist sækja börn ykkar eru vinsamlegast beðin um að gera það fyrir kl. 13:45.

Þið sem hyggist sækja og hafið ekki látið vita við skráningu, eruð beðin um að hringja í síðasta lagi fyrir kl. 12:00 og láta vita, svo töskurnar fari ekki í rúturnar.

Að lokum

Það eru þreyttir, en vonandi sáttir unglingar sem koma í fang ykkar við heimkomu. Við erum að minnsta kosti mjög ánægð með flokkinn og unglingana, framtíðin er sannarlega björt og þeim eru allir vegir færir, það er nokkuð ljóst. Við sem störfum í Vatnaskógi erum þakklát fyrir það traust sem foreldrar sýna okkur með því að senda börn sín í sumarbúðir og tökum það traust alvarlega. Það er og metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi í tengslum við Unglingaflokk getur þú sent tölvupóst á arsaell@kfum.is eða haft samband við skrifstofu KFUM og KFUK í Reykjavík, sími 588 8899.

Minnum á myndir á síðunni okkar

Með þökk fyrir traustið.
Fyrir hönd starfsfólks Unglingaflokks,
Þórdís Hafþórsdóttir og Gunnar Hrafn Sveinsson, forstöðufólk.