Þá er Aðventuflokki lokið, sem markar jafnframt lok starfsins á árinu hér í Vatnaskógi.
Helgin var yndisleg og strákarnir sem hingað mættu voru frábærir, sem gerir þetta að góðum endi á skemmtilegu starfsári.

Föstudaginn 6. desember, komu tæplega 50 hressir strákar hingað í Vatnaskóg, tilbúnir í ævintýri helgarinnar. Þeir eiga flestir það sameiginlegt að hafa komið hingað áður, sem þýðir tvennt = 1. mikil reynsla, 2. mikil gæði og það er gott.
Þessa helgina buðum við upp á fjölbreytta dagskrá líkt og pool- og borðtennismót, besti arkitektinn, knattspyrnu, snjóstríð, ómöguleika (þar sem hópurinn keppti á móti foringjunum í hinum ýmsu greinum og vann mögulega ⅗…), piparkökuskreytingagerð, ferð út á ísilagt Eyrarvatn og svo mætti áfram telja. 

Á kvöldvökunum sungum við Skógarmannalög í bland við jólalög yfir fallegum arineld, fengum að sjá leikrit frá Villiöndinni, heyra sögur og fara í leiki. Boðið var upp á kapellustund fyrir svefninn á föstudagskvöldinu. Við fórum út í skóg á laugardagskvöld eftir kvöldvöku og grilluðum sykurpúða og hlýjuðum okkur svo undir sæng, með popp og gos bauk og horfðum á jólamynd fyrir svefninn. Þeir voru margir ansi þreyttir, snáðarnir sem lögðust á koddann sinn það kvöldið.

Í Vatnaskógi var ágætlega kalt, hiti um -8°, snjór og að mestu logn, bjart og fallegt veður, sem kemur manni í jólaskap.

Heimferðin mun sennilega seint rata úr minni þeirra sem hana upplifðu. Ekki nóg með að rútan færi ekki upp brekkuna að Vatnaskógi vegna hálku svo minni rúta þurfti að ferja föggur og fólk niður að þjóðvegi 47, heldur ákvað rútan sömuleiðis að gefa upp öndina rétt við þjóðveg 1 svo senda þurfti tvær minni rútur á eftir okkur. Þetta endaði því í þremur rútuferðum hjá okkur á tveimur og hálfum tímum, geri aðrir betur á annan í aðventu, takk. 

Starfsfólk

Þessi helgi var mönnuð af gömlum kempum sem flestir drengirnir könnuðust vel við frá fyrri tíð. Foringjar sem önnuðust dagskrá og umönnun drengjanna voru þeir:

  1. borð – Ástráður Sigurðsson
  2. borð – Fannar Logi Hannesson
  3. borð – Þráinn Andreuson
  4. borð – Hreinn Pálsson (jafnframt forstöðumaður)

Þeim til skrafs og ráðagerða var Gunnar Hrafn Sveinsson, forstöðumaður.

Eldhúsi og þrifum í Vatnaskógi stýrði matráðurinn Ísak Jón Einarsson.
Bakarameistari flokksins var Tinna Dögg Birgisdóttir. Henni til halds og trausts voru Ríkharður Esterarson og ungur sonur þeirra, Unnsteinn Birgir. Þá var Pétur Bjarni Sigurðarson, ábúandi í Vatnaskógi, í hinum ýmsu verkum.

Matseðill helgarinnar

Föstudagur
Kvöldmatur: Lasagna, hvítlauksbrauð og salat
Kvöldkaffi: Vöfflur með sultu, rjóma, súkkulaði og sykri, toppað með mjólkurkexi og pólókexi (að sjálfsögðu)

Laugardagur
Morgunmatur: Morgunkorn, nýbakað brauð og heitt kakó
Hádegismatur: Steiktur fiskur og meðlæti
Kaffitími: Jógúrtkaka, kanilsnúðar og vel skreyttar piparkökur eftir drengina
Kvöldmatur: Grillaðir hamborgarar í -8°
Skógarvarðeldur: Sykurpúðar
Kvöldkaffi: Popp, gos, kex og piparkökur!

Sunnudagur
Bröns: Eggjabaka, beikon, áhugaverð útgáfa af pönnukökum með flórsykri og sýrópi ásamt morgunkorni og jú, Vatnaskógarflatbökum.

Ljósmyndir frá ferðinni

Þökkum traustið og gleðileg jól!
Gunnar Hrafn og Hreinn – forstöðumenn