Sumarið fer af stað með sólskini og fuglasöng í bland við gleði og hlátur ungra Skógarmanna.
Annar flokkur sumarsins í Vatnaskógi hófst í gær. Það voru rúmlega 100 drengir og starfsfólk sem lögðu af stað í rútunum frá Holtavegi og spennan var í hámarki. Rútuferðin gekk mjög vel og við komum í Vatnaskóg rétt rúmlega kl. 11.30

Þegar drengirnir mættu byrjuðum við á því að raða þeim niður á borð í matsalnum og fara yfir reglurnar í Vatnaskógi, sem minna nokkuð á lögbókina í Kardimömmubænum þar sem segir:  ,,Engum sæmir aðra að svíkja, allan sóma stunda ber. Annars geta menn bara lifað og leikið sér.“ Það að lifa í friði við aðra og leika sér er grundvallarreglan í Vatnaskógi og gekk öllum vel að fylgja þeirri reglu í gær. Eftir að drengirnir voru komnir á sín borð var komu þeir sér fyrir í svefnsölum með aðstoð foringja sem hjálpuðu með lökin o.þ.h.. Við gættum þess að vinir væru saman í herbergjum. Síðan var hádegismatur og dásamlegt lasagne í matinn og tóku drengirnir hressilega til matar síns. Eftir mat voru hóp-og samhristingsleikir og mikið fjör, við opnuðum báta og boðið var upp á ævintýraferð i skóginum. Fótboltamótið fór vel af stað með 6 leikjum í gær, en í hverjum flokki keppa borðin sína á milli í Svínadalsdeildinni og fær sigurlið deildarinnar að lyfta veglegum bikar á veisludegi.

Þetta er fjölmennur og fjörugur hópur drengja sem eru svo sannarlega til í að skemmta sér og þannig viljum við hafa það. Það gekk ágætlega að sofna í gær enda margir úrvinda eftir langan dag. Það var komin ró í húsið rúmlega kl. 23. Í morgun vöknuðu drengirnir flestir upp úr kl. 8 og eru núna að fá sér morgunmat – það er fallegt veður en því miður vindur sem þýðir að lítið verður um báta í dag, en í staðinn erum við lausir við fluguna sem stendur illa af sér norðaustan átt í Vatnaskógi.

Símatími er frá 11-12, og hægt að hafa samband þá við undirritaðan ef eitthvað er í síma  433 8959, einnig er hægt að senda tölvupóst á jon.omar.gunnarsson(hjá)gmail.com.

Myndir munu birtast síðar í vikunni hér á myndasvæði KFUM og KFUK á Íslandi.

Nokkur orð um heimþrá

Í tæplega 100 manna hópi er ekki ólíklegt að einhverjir drengir finni fyrir heimþrá fyrsta sólarhringinn eða svo. Því þykir mér mikilvægt að útskýra fyrir þeim foreldrum sem áhuga hafa hvaða hugmyndafræði og nálgun við aðhyllumst í þessum flokki í Vatnaskógi í tengslum við heimþrá. Því er hér smá innlegg.

Þrátt fyrir að heimþrá hafi ekki mikil áhrif nema á mjög lítinn hluta þeirra sem hér dvelja hverju sinni er heimþrá mikilvæg tilfinning og getur snert okkur öll. Heimþrá snýst um missi og er þannig nátengd sorg. Viðbrögð drengjanna eru þannig oft eins og skyndikúrs í sorgarviðbrögðum. Þegar heimþrá nær tökum á drengjunum, geta þeir komið með ásakanir, lokað sig af, reiðst og/eða notað samningatækni til að takast á við vanlíðan/sorgina. Stundum fylgir líkamleg vanlíðan, oftast nær í tengslum við magann (eða meltingarkerfið) en getur einnig komið fram sem hausverkur eða stirðleiki í liðum.

Fullorðnir einstaklingar þekkja væntanlega flest þessi einkenni, enda fullkomlega eðlileg viðbrögð við áfalli og breyttum aðstæðum. Fyrir marga drengina í sumarbúðum eru þessar sveiflukenndu og sterku tilfinningar hins vegar nýjar og jafnvel áður óþekktar og þeir hafa ekki hugmynd um hvernig hægt er að takast á við þær.

Í Vatnaskógi leggjum við áherslu á að takast á við þessar tilfinningar í samráði við foreldra og höfum samband strax og við teljum að tilfinningarnar hefti tækifæri drengjanna til að njóta dvalarinnar. Það að við höfum samband merkir samt alls ekki að við teljum að viðkomandi drengur þurfi að fara heim, heldur miklu fremur viljum við að þekking foreldra á barninu nýtist til að hjálpa okkur að finna leiðir til að leyfa barninu að njóta sín. Samskipti og samstarf milli allra aðila, barns, foreldra og starfsmanna er lykill að þessu.

Aðferðafræðin í heimþrármálum hérna í Vatnaskógi þessa vikuna er sú að hjálpa barninu að brjótast út úr sorgarferlinu, sættast við umhverfi sitt og sjá tækifærin í dvölinni. Þannig viðurkennum við og skiljum tilfinningarnar en reynum að beina athygli þeirra frá vanlíðaninni að tækifærunum.

Við trúum því að þessi reynsla drengjanna og það að láta ekki stjórnast af vanlíðan, þó hún sé viðurkennd, sé mikilvæg fyrir drengina og hjálpi þeim til að þroska tilfinningar sínar og andlegt atgervi. Við skiljum þó líka að það getur gerst að aðstæður, upplifun og tilfinningar drengjanna séu þess eðlis að þeir eru einfaldlega ekki tilbúnir til að takast á við dvölina og þurfa að vera skemur en áætlað var í upphafi. Það gerist þó mjög sjaldan.