Í morgun vöknuðu drengirnir hressir og kátir eftir góða næturhvíld. Nóttin gekk vel og engin á ferli nema þrestirnir sem syngja fyrir okkur í kyrrðinni. Í gærkveldi var stórskemmtileg kvöldvaka. Leikfélagið Villiöndin setti á svið leikritið Hótel Bergmál. Það er alltaf jafn vinsælt. Það mátti heyra saumnál detta þegar Bjartur, frjálsíþróttaforingi, fór með fyrsta þátt af framhaldssögunni, svo mikil var spennan. Að lokum sagði Fannar, bátaforingi, okkur biblíusöguna um týnda sauðinn. Hér að neðan er kynning á foringjateyminu.

Dagurinn í dag fór rólega af stað. Morgnarnir í Vatnaskógi fylgja ætíð sömu dagskrá: vakna, morgunverður, fánahylling, morgunstund, biblíulestur, frjáls tími. Eftir hádegisverð setjum við í fimmta gír og förum allir saman út í Oddakot. Þar mun Jakob, útileikjaforingi, stýra ævintýraleikjum. Einn þeirra hefur fengi nafnið Fortnite og er í miklu uppáhaldi hjá drengjunum. Oddakot er við austurenda Eyrarvatns, í u.þ.b. tíu mínútna göngufjarlægð frá skálunum. Þar var búið fyrr á öldum en í dag eru þar grasi vaxnar rústir eftir bæinn. Við Oddakot er ylströndin okkar þar sem gott er að njóta í sólinni. Restina af deginum verður hefðbundin dagskrá: fótbolti, frjálsar íþróttir, pool-mót, tímaskynskeppni, listakeppni, bátar og smíðaverkstæði. Almennur ærslagangur og rólegheit í bland.

Foringjar

1. borð: Fannar Smári Jóhannsson, bátaforingi.
2. borð: Bjartur Dalbú Ingibjartsson, frjálsíþróttaforingi.
3. borð: Andri Karl Bragason, innileikjaforingi.
4. borð: Hallur Hrafn Garðarsson Proppé, knattspyrnuforingi.
5. borð: Guðjón Daníel Bjarnason, bátaforingi.
Borðlausir: Jakob Freyr Einarsson, útileikjaforingi, og Nói Pétur Ásdísarson Guðnason, alhliðaforingi.

Aðstoðarforingjar: Arnór, Bjarki, Haukur, Ísadóra, Jóhanna og Mikael.

Matseðill dagsins

  • Morgunverður: Morgunkorn og brauð með heitu kakói.
  • Hádegisverður: Fiskur í raspi með kartöflum, salati og sósu.
  • Síðdegishressing: Kaka með hvítu kremi, pizzasnúðar og kanillengjur
  • Kvöldverður: Pylsur úti í góða veðrinu.
  • Kvöldhressing: Ávextir og kex.

 

Ég minni á símatíma forstöðumanns alla daga kl. 11:00–12:00.

Myndasíða flokksins er hér.

 

Með góðum kveðjum,

Matthías Guðmundsson,
forstöðumaður.