Í þessum sjötta flokki er mikill meirihluti drengjanna að koma í fyrsta sinn í Vatnaskóg. Þegar þeir vöknuðu í morgun vöknuðu þeir sem Skógarmenn. En Skógarmenn eru þeir sem hafa gist tvær nætur í dvalarflokki í Vatnaskógi. Þeir eru þar með komnir í stóran hóp Íslendinga sem telur sennilega á þriðja tugþúsund. Við óskum þeim innilega til hamingju með það og tökum þeim fagnandi í okkar hóp.
Í gær lék veðrið aldeilis við okkur. Það var svo gott að bátaforingjarnir, Fannar og Guðjón, leyfðu drengjunum að hoppa út í vatnið. Þetta eru harðir drengir því þó hlýtt væri í lofti var kalt í vatninu og margir drengjanna fóru oftar en tvisvar og oftar en þrisvar í vatnið. Eftir buslið við bryggjuna voru þeir sendir út í íþróttahús þar sem Andri, innileikjaforingi hleypti þeim í sturtu og heita potta. Bátaforingjarnir höfðu þó ekki klárað sitt dagsverk þá því eftir kvöldverð buðu þeir upp á mótorbátsferðir! Kvöldvakan var svo hin skemmtilegasta og höfðu drengirnir orð á því hvað leikritið hafði nú verið fyndið og skemmtilegt.
Í dag er veisludagur. Í því felst enn meiri og skemmtilegri dagskrá. Meðal þess er foringjaleikurinn þar sem úrvalslið drengja keppir í knattspyrnu við lið foringja. Þá verða hoppukastalarnir opnir eftir kaffihressinguna. Matartímarnir verða líka veglegri, sérstaklega kaffihressingin og kvöldverðurinn. Við erum heppin með starfsfólkið í eldhúsinu. Þau elda ljómandi góðan mat og hafa margir drengirnir haft orð á því. Enda borða þeir vel og mikið til að safna orku fyrir leiki dagsins. Að neðan er kynning á starfsliðinu í eldhúsinu. Í kvöld verður svo veislukvöldvaka. Hún er lengri og stærri en hefðbundnar kvöldvökur. Tvö, jafnvel þrjú leikrit. Lokaþáttur framhaldssögunnar. Hugleiðing sem vekur mann til umhugsunar. Og rúsínan í pylsuendanum: Sjónvarp Lindarrjóður. Nói, sjónvarpsforingi, hefur sett saman glæsilegan sjónvarpsþátt um flokkinn, drengina og foringjana. Þá verður einnig bikaraafhending til þeirra drengja sem hafa sigrað hinar ýmsu keppnir og mót.
Starfslið eldhúss
Ráðskona: Sólveig Cosser.
Bakari: Elfa Björk Ágústdóttir
Starfsmenn: Alma Ísafold Stefánsdóttir Cosser, Katrín Ylfa Árnadóttir Cosser og Þórey Björgvinsdóttir.
Matseðill dagsins
- Morgunverður: Morgunkorn og brauð með heitu kakói.
- Hádegisverður: Ávaxtasúrmjólk og afgangar.
- Síðdegishressing: Risakanilsnúður með súkkulaði.
- Kvöldverður: Veislu-Schnitzel, brúnaðar kartöflur, baunir og rauðkál.
- Kvöldhressing: Ávextir og kex.
Í kvöld kemur síðasta fréttin og praktískar upplýsingar um heimferðina.
Ég minni á símatíma forstöðumanns alla daga kl. 11:00–12:00.
Með góðum kveðjum,
Matthías Guðmundsson,
forstöðumaður.