Nú er veisludagurin okkar liðinn og veislukvöldið líka. Drengirnir fóru sáttir, sælir og þreyttir í háttinn eftir langan og fjörugan dag. Á veislukvöldvökunni var bikarafhending og myndum af henni er að vænta á myndasíðunni. Á morgun tekur við heimferðardagurinn. Að venju verða drengirnir vaktir kl. 8:30 og fá morgunmat kl. 9. Þá pakka drengirnir og ganga frá herbergjum sínum. Eftir það er frjáls dagskrá og leikir fram að hádegismat. Í boði verður hin víðfræga Vatnaskógar-pizza. Eftir hádegi verður lokastund og svo leggja rúturnar af stað kl. 14:00. Við áætlum að vera komnir aftur á Holtaveg 28 kl. 15:00.

Þau ykkar sem hyggjast sækja drengina sína í Vatnaskóg eru beðin um að koma eigi síðar en kl. 13:30. Vinsamlegast látið vita ef þið ætlið að sækja ykkar drengi sjálf ef þeir eru skráðir í rútuna heim, svo töskurnar þeirra fari ekki upp í rúturnar. Þeir sem verða sóttir í Vatnaskóg munu koma farangri sínum fyrir framan Matskálann. Endilega látið vita sem fyrst en símatíminn er eins og fyrr segir kl. 11:00–12:00 og númerið er 433 8959.

Allir óskilamunir sem ekki skila sér til drengjanna í Vatnaskógi munu fara á Holtaveg 28 í Reykjavík, félagsheimili KFUM og KFUK.

Þetta er fjórða og síðasta fréttin frá 6. flokki 2025. Fyrir hönd Vatnaskógar og starfsmanna þakka ég það traust sem þið, foreldrar og forráðamenn drengjanna, sýnið okkur. Það er okkur heiður að taka á móti þeim í sumarbúðirnar og við tökum þessu trausti alvarlega. Það er von okkar að drengirnir komi sáttir heim með góðar minningar og lærdóm í farteskinu.

Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi í tengslum við 6. flokk getur þú sent tölvupóst á arsaell@kfum.is eða haft samband við skrifstofu KFUM og KFUK í Reykjavík í síma 588-8899.

 

Með góðum kveðjum,

Matthías Guðmundsson
forstöðumaður.